Vialli og Mancini kynntust hjá Sampdoria á Ítalíu hvar þeir leiddu framlínu liðsins saman frá 1984 til 1992, þegar Vialli yfirgaf liðið til að semja við Juventus. Þeir voru einnig saman í ítalska landsliðinu á þessum árum en svo endurnýjuðu þeir kynnin í starfsliði Ítalíu á EM í fótbolta þarsíðasta sumar.

Mancini stýrði Ítalíu þá til Evróputitils og hafði ráðið félaga sinn, Vialli, inn í þjálfarateymið í kringum mótið. Mancini vissi af veikindum hans þegar hann var ráðinn.
„Hann talaði aldrei við mig um veikindin fyrr en árið 2019, en þá voru þegar sögusagnir um það og ég hafði heyrt af því frá sameiginlegum vini. Hann sagði mér að hann væri í meðferð vegna þeirra og var alltaf jákvæður,“
„Hann var alltaf baráttumaður, hann lét ekki undan fyrr en undir lokin. Það var hans persónuleiki, hann var stríðsmaður. Ég er stoltur af því að kalla Gianluca vin minn,“ segir Mancini.
Hitti hann síðast í desember
Vialli hafði þá þegar verið í meðferð vegna krabbameins í brisi þegar Ítalir unnu titilinn á Wembley sumarið 2021. Frægt er faðmlag þeirra félaga eftir að ljóst var að Evróputitillinn færi til Ítalíu.
Veikindi Viallis tóku sig upp að nýju á þessu ári og segir Mancini ítölskum fjölmiðlum frá síðasta skiptinu sem hann hitti vin sinn.
„Ég fór að heimsækja Luca í Lundúnum í desember, og í hreinskilni sagt var ég örlítið hræddur,“ segir Mancini.
„Hann vaknaði, við hlógum og grínuðumst hvor í öðrum, og hringdum í Attilio Lombardo, félaga okkar. Vialli sagði mér: Ég er rólegur, ekki hafa áhyggjur af mér. Hann var sá sem reyndi að hughreysta mig,“

Þá ræddu þeir einnig ítalska landsliðið og framtíð þess. Vialli vildi sjá liðið bæta fyrir það að hafa misst af nýliðnu heimsmeistaramóti í Katar.
„Gianluca sagði mér að við verðum að vinna HM 2026 og að hann myndi vera þar með okkur. Hann mun klárlega vera þar og við vonumst til að tileinka honum frábæran sigur sem allra fyrst,“ segir Mancini.