Erlent

Gangast við miklum fjölda smita en ekki fjölda dauðs­falla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðherra lýðheilsu í Taílandi tók vel á móti ferðamönnum frá Kína í morgun, eftir að aðgerðum á landamærum Kína var aflétt.
Ráðherra lýðheilsu í Taílandi tók vel á móti ferðamönnum frá Kína í morgun, eftir að aðgerðum á landamærum Kína var aflétt. AP/Sakchai Lalit

Nærri 90 prósent íbúa í þriðja fjölmennasta héraði Kína hafa greinst með Covid-19, að sögn yfirmanns heilbrigðismála. Þetta þýðir að um 88,5 milljónir manna í héraðinu hafi veikst.

Kan Quancheng segir heimsóknir á svokölluð „hita-klíník“ hafa náð hámarki 19. desember en hafa fækkað síðan þá. Kínverjar opnuðu landamæri sín í gær eftir að mikil mótmæli urðu til þess að stjórnvöld féllu frá fyrri stefnu sinni um „núll Covid“.

Gert er ráð fyrir að greiningum muni fjölga mikið á næstunni, þegar Kínverjar fagna nýju ári og milljónir ferðast frá borgum landsins út á landsbyggðina til að heimsækja ástvini. Samkvæmt opinberum gögnum ferðuðust 34,7 milljónir manna innanlands á laugardag.

Afléttingar á landamærunum eru sagðar munu verða til þess að mun fleiri ferðist út fyrir landsteinana og mörg ríki hafa gripið til þess ráðs að krefjast neikvæðrar niðurstöðu úr skimun áður en ferðalöngum frá Kína er hleypt inn í landið.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir faraldurinn í Kína mun umfangsmeiri en opinberar tölur gefa til kynna og sérfræðingar spá því að allt að milljón manns muni deyja af völdum farsóttarinnar á þessu ári. Kínverjar hafa hingað til aðeins viðurkennt 5.200 dauðsföll af völdum veirunnar.

„Lífið heldur áfram á ný!“ sagði í ritstjórnargrein fréttablaðs Kommúnistaflokksins um helgina, þar sem aðgerðir stjórnvalda voru mærðar. Þær voru sagðar hafa miðað að því áður að koma í veg fyrir smit en nú væri markmiðið að takmarka alvarleg veikindi.

„Í dag er veiran veik, við erum sterkari,“ sagði í greininni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×