Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælum í Íran sem hófust eftir að 22 ára kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Konan hét Mahsa Jina Amini og var sökuð um að bera höfuðklút sinn ekki á viðeigandi máta og var handtekin í kjölfarið.
Í síðasta mánuði greindu mannréttindasamtökin „Iran Human Rights“, sem staðsett eru í Osló í Noregi að í það minnsta hundrað manns sem handteknir hafi verið í tengslum við mótmælin eigi nú yfir höfði sér ákærur sem geti haft dauðadóm í för með sér. Þá hafi ellefu úr þessum hundrað manna hópi verið dæmd til dauða.
Samkvæmt umfjöllun CNN um aftökurnar í dag er 41 mótmælandi sagður nú hafa verið dæmdur til dauða. Mennirnir tveir sem voru teknir af lífi í morgun voru sakfelldir fyrir það að verða hermanni að bana 3. nóvember síðastliðinn.
Þá kemur fram að öðrum mannanna hafi ekki verið gefinn möguleiki á að tala við fjölskyldu sína áður en hann var tekinn af lífi.
Mikil óhamingja ríkir víða um heim vegna ástandsins í Íran og hefur verið boðað til mótmæla víða vegna dauðadómana.
Þá hafa hin ýmsu alþjóðasamtök mótmælt aðgerðum íranskra stjórnvalda gegn mótmælendum svo sem Amnesty International, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið. Samtökin hafa öll kallað eftir því að aftökunum linni og hefur mannréttindasendinefnd Sameinuðu þjóðanna sagt aftökur dagsins vera niðurstöðu byggða á „ósanngjörnum réttarhöldum vegna þvingaðra játninga“.