Erlent

Bankaði á öxl flugmannsins sekúndum fyrir slysið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farþeginn sem tók umrætt myndband sat í aftursæti þyrlunnar sem er hér til hægri. Allir um borð í henni komust lífs af. Sex voru um borð í hinni þyrlunni. Fjögur létust og tvö eru alvarlega slösuð.
Farþeginn sem tók umrætt myndband sat í aftursæti þyrlunnar sem er hér til hægri. Allir um borð í henni komust lífs af. Sex voru um borð í hinni þyrlunni. Fjögur létust og tvö eru alvarlega slösuð. Dave Hunt/AAP Image via AP

Myndband sem ástralskur fréttamiðill hefur birt sýnir að farþegi um borð í annarri af tveimur þyrlum sem rákust saman á flugi í Ástralíu um helgina reyndi að vara flugmanninn við sekúndum áður en slysið mannskæða varð.

Ástralski fjölmiðillinn 7News Australia birti umrædd myndband í dag. Myndbandið er tekið af einum farþega vélarinnar og sýnir augnablikin í aðdraganda þess að þyrlurnar tvær rákust saman.

Á myndbandinu má sjá farþega í aftursæti vélarinnar reyna að ná athygli flugmanns þyrlunnar með því að banka á öxl hans, áður en hann sést grípa í sætið fyrir framan sig á því augnabliki sem þyrlurnar rekast saman. Reikna má með því að farþeginn hafi reynt að vara flugmanninn við.

Fjögur létust í slysinu, öll um borð í hinni þyrlunni sem var á uppleið er slysið varð. Þyrlan sem myndbandið var tekið um borð í var á niðurleið. Flugmaður þeirrar þyrlu tókst að lenda vélinni á sandrifi. Þau sem voru um borð í þeirri þyrlu hluti flest minniháttar meiðsli og komust öll lífs af.

Flugmaður þeirrar þyrlu er sagður hafa sýnt aðdáunarverða hæfni með því að ná að lenda þyrlunni, þrátt fyrir talsverðar skemmdir og þá staðreynd að þyrluspaði hinnar þyrlunnar fór í gegnum framrúðu þeirrar þyrlu.

Í frétt 7News Australia er rætt við Geoff Thomas, sérfræðing í flugmálum, sem horfði á myndbandið og segir að útlit sé fyrir að flugmaður þyrlunnar sem myndbandið var tekið í hafi ekki séð hina þyrluna.

Slysið átti sér stað Sea World skemmtigarðinum í ástralska bænum Gold Coast, suður af Brisbane á austurströnd Ástralínu. Rannsókn málsins er í fullum gangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×