Fjallað var um Axarveg á sunnanverðum Austfjörðum í fréttum Stöðvar 2 en fjallvegurinn liggur milli Skriðdals og Berufjarðar. Um hann liggur stysta leiðin milli Fljótsdalshéraðs og Djúpavogs. Þarna er núna hlykkjóttur malarvegur sem lokaður er yfir vetrarmánuði.

Uppbygging hans sem tveggja akreina heilsársvegar með bundnu slitlagi hefur lengi verið draumur Austfirðinga, sérstaklega þó íbúa sveitarfélaganna sem núna mynda Múlaþing. Enda styttir vegurinn ferðatímann milli Djúpavogs og Egilsstaða um fjörutíu til fimmtíu mínútur, miðað við að aka um firðina eða um Breiðdalsheiði.

Til að koma verkinu í gang voru Alþingi og ríkisstjórn búin að skilgreina það sem samvinnuverkefni, ásamt fimm öðrum. Hafði Vegagerðin í fyrra gefið það út að vegurinn um Öxi yrði boðinn út á árinu 2022. Það ár er núna liðið.
„Við vorum í raun og veru langt komin með útboðsgögn þar til að hefja það ferli,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.
Ekkert bólar á útboðinu. Alþingi og ríkisstjórn skáru nefnilega tíu milljarða króna af nýframkvæmdum í vegagerð á þessu ári. Og þótt gert væri ráð fyrir einkafjármögnun Axarvegar og vegtolli átti ríkið að koma með mótframlag.

„Það voru lækkuð framlög til vegagerðar, flutt til 2024, út af þensluáhrifum meðal annars. Og að einhverju leyti bitnar það kannski á Öxi.
En við erum að vinna af fullum krafti í undirbúningi þar, bæði að hönnun og landakaupum og öllu sem tilheyrir þar.

Þannig að væntanlega næsta vor, þá mun það skýrast í tengslum við fjármálaáætlun, sem liggur fyrir næsta vor, fjármálaáætlun til fimm ára, hvernig fjármögnun á nýjum vegi um Öxi verður,“ segir Guðmundur Valur.
Uppbygging vegarins var ein helsta forsenda sameiningar Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri í Múlaþing en hún var samþykkt í íbúakosningu haustið 2019.

Vegagerðin hafði stefnt að því að framkvæmdir við Axarveg hæfust vorið 2023 og að verkið tæki þrjú ár. En hvenær telja Vegagerðarmenn núna að verkið gæti hafist?
„Ég held að það bara, eins og fleiri verkefni hjá okkur, varðandi samgönguáætlun og í vegagerð, byggir mikið á hvernig fjármálaáætlunin muni líta út fyrir 2024 til 2028. Það er kannski bara ótímabært að tjá sig eitthvað um það fyrr en það bara liggur fyrir,“ svarar framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.
