Innherji

Ásgeir seðlabankastjóri ársins að mati tímaritsins The Banker

Hörður Ægisson skrifar
Verðlaunin eru veitt þeim seðlabankastjóra sem þykir hafa tekist best til við að stuðla að hagvexti og jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
Verðlaunin eru veitt þeim seðlabankastjóra sem þykir hafa tekist best til við að stuðla að hagvexti og jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Að hækka stýrivexti þvert gegn ráðleggingum annarra hagfræðinga og seðlabanka krefst ekki aðeins hugrekkis heldur sömuleiðis ákveðni, eiginleikar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri Íslands hefur yfir að bera, segir í umfjöllun The Banker. Alþjóðlega fjármálatímaritið, sem er gefið út af The Financial Times, hefur valið Ásgeir sem seðlabankastjóra ársins 2023.

Verðlaunin eru veitt þeim seðlabankastjóra sem þykir hafa tekist best til við að stuðla að hagvexti og jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Í rökstuðningi blaðsins er meðal annars nefnt að Ásgeir, sem er lýst sem hreinskilnum og hispurlausum í framgöngu, hafi verið fyrsti seðlabankastjórinn á Vesturlöndum sem reið á vaðið þegar faraldurinn stóð enn yfir og hóf að hækka vexti bankans í maí árið 2021. Á þeim tíma hafi margir aðrir seðlabankar talið of snemmt að hefja vaxtahækkunarferlið og álitu að verðbólgan, sem þá var farin að láta á sér kræla beggja vegna Atlantshafsins, væri aðeins tímabundin. Það stöðumat átti eftir að reynast rangt.

Rifjað er upp að í kjölfar þess að íslensku bankarnir féllu haustið 2008 hafi verðbólga og vextir Seðlabankans hækkað til muna. Eftir að hafa upplifað þá tíma, meðal annars sem forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sé Ásgeir ákveðinn í því að leyfa verðbólgunni ekki að festa sig í sessi á nýjan leik.

„Við vöknuðum upp við vondan draum þegar fjármálakreppan reið yfir árið 2008 og við höfum í kjölfarið reynt að bregðast við með því að bæta regluverkið okkar á nánast öllum stigum,“ er haft eftir Ásgeiri í umfjöllun The Banker. „Hingað til hefur það skilað árangri, en það eru enn ýmsar áskoranir framundan.“

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Ásgeir fær viðkenningu frá einu af þekktari fjármálatímaritum heimsins. Síðastliðið haust gaf ritið Global Finance Ásgeiri hæstu mögulegu einkunn fyrir frammistöðu sína sem seðlabankastjóri. Var hann þá eini seðlabankastjórinn á heimsvísu sem fékk einkunnina A+, samkvæmt mati Global Finance. Tímaritið gefur seðlabankastjórum einkunnir frá A til F og byggist einkunnagjöfin á því hversu vel þeim hefur tekist til við að koma böndum á verðbólgu. Einnig er horft til árangurs seðlabanka í vaxtastýringu, stuðla að öflugum hagvexti og í því að viðhalda gengisstöðuleika.

Eftir að faraldurinn braust út snemma árs 2020 brást Seðlabanki Íslands skjótt við með því að lækka vexti bankans, sem þá stóðu í 2,75 prósentum, niður í allt að 0,75 prósent. Frá og með maímánuði á árinu 2021 hafa vextirnir hins vegar verið hækkaðir á tíu fundum peningastefnunefndarinnar í röð – stundum um allt að 75 og 100 punkta á einu bretti – í því skyni að reyna ná niður verðbólgunni að 2,5 prósenta markmiði bankans. Nýjast þjóðhagsspá bankans gerir ráð fyrir að það muni ekki takast fyrr en undir árslok 2025.

Á síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans, sem fór fram í nóvember, þá voru vextirnir enn hækkaðir – úr 5,75 prósent í 6 prósent – sem kom mörgum greinendum og hagfræðingum á óvart. Seðlabankastjóri vísaði hins vegar til þess að vaxtahækkunin væri nauðsynleg með hliðsjón af vaxandi einkaneyslu, viðskiptahalla og veikingu krónunnar samhliða því að enn væri mikill þróttur í hagkerfinu og útlit fyrir að hagvöxtur síðasta árs verði um sjö prósent, sá mesti í allri Evrópu.

Við vöknuðum upp við vondan draum þegar fjármálakreppan reið yfir árið 2008 og við höfum í kjölfarið reynt að bregðast við með því að bæta regluverkið okkar á nánast öllum stigum.

Í viðtali við The Banker segist Ásgeir vonast eftir því að ekki þurfi að hækka vexti bankans umfram það sem þeir eru núna. Hann sé hins vegar reiðubúinn til að gera það sem þurfi að gera til að ná niður verðbólgunni á þann stað sem honum líður betur með.

Hraðar og brattar vaxtahækkanir Seðlabankans virðast vera að hafa einhver áhrif, að sögn fjármálaritsins. Verðbólgan hefur samt reynst þrálátari á liðnu ári en vonast hafi verið til. Tólf mánaða verðbólgan mælist núna 9,6 prósent en Seðlabankinn hefur áhyggjur af innfluttri verðbólgu og þeirri staðreynd að undirliggjandi verðbólga heldur haldið áfram að aukast með þeim afleiðingum að helmingur undirliða vísutölu neysluverðs hafði hækkað um meira en sex prósent milli ára í október síðastliðnum.

Sé litið til samræmdrar vísitölu neysluverðs í Evrópu var hún þriðja lægst á Íslandi – aðeins lægri í Sviss og á Spáni – og mældist sjö prósent. Í ríkjum ESB mældist hún hins vegar að jafnaði rúmlega 11 prósent.

The Banker bendir einnig á að til viðbótar við að hækka vexti hafi íslenski seðlabankastjórinn sýnt að hann sé reiðubúinn að beita þeim tækjum og tólum sem bankinn hefur yfir að ráða til að hafa gætur á útlánavexti í því skyni að aftra því að bankakerfið, heimilin og fyrirtæki skuldsetji sig um of.

Rifjað er upp að við sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í árslok 2019 hafi stofnuninni verið veitt „fordæmalaus þjóðarhagsvarúðar völd“ sem Ásgeir hafi reynt að nýta til hins góða. Rökstuðningur hans, að því er segir í umfjöllun ritsins, er að í litlu opnu hagkerfi eins og á Íslandi þá þurfi að gæta mjög vel að útlánamyndun í kerfinu.

Það sé meðal annars gert, eins og Ásgeir fór meðal annars yfir í nýlegri ræðu sem hann flutti í París, með því að bankarnir þurfi að uppfylla eiginfjárkröfur sem eru um eða yfir 20 prósent. Þá hafi einnig verið ráðist í aðgerðir á lántakahliðinni með því að lækka hámark veðsetningarhlutfalls við fasteignakaup og eins settar nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við ráðstöfunartekjur neytenda til að halda aftur af skuldsetningu heimila.

Það hefur meðal annars átt sinn þátt í því að mjög hefur hægt á verðhækkunum og veltu á fasteignamarkaði á síðustu mánuðum. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um rúmlega 20 prósent á einu ári en ef litið sé sex mánuði aftur í tímann þá nemur hækkunin aðeins fjórum prósentum.

Um leið og þú ert að reyna stýra mörgum hlutum í einu, þá gerist það sjálfkrafa að þú tekur yfir ábyrgðina á öllu og þá er alltaf hættan sú að þér verði kennt um ef eitthvað fer úrskeiðis

„Við viljum gæta að öryggi og stöðugleika í hagkerfinu,“ segir Ásgeir í samtali við The Banker, en bætir hins vegar við: „En um leið og þú ert að reyna stýra mörgum hlutum í einu, þá gerist það sjálfkrafa að þú tekur yfir ábyrgðina á öllu og þá er alltaf hættan sú að þér verði kennt um ef eitthvað fer úrskeiðis.“

Ásgeir segir að hann sé stoltur af því að vera valinn seðlabankastjóri ársins af tímaritinu, og það sé jákvætt fyrir Ísland að fá slíka viðurkenningu.

„Ég hef verið seðlabankastjóri á Íslandi í meira en þrjú ár. Á fyrstu fundunum sem ég sótti erlendis og hitti aðra seðlabankastjóra var ég alltaf með þá tilfinningu að ég væri ekki tekinn alvarlega,“ nefnir Ásgeir.

„Ég er yngri en þeir flestir, og komandi frá litlum seðlabanka þá var oft verið að gera meðal annars grín að fjármálakreppunni á Íslandi […] Þannig að ég álit þessi verðlaun vera mjög jákvæð og mikilvæg viðurkenning á þeirri vinnu sem við höfum áorkað frá bankakreppunni.“


Tengdar fréttir

Ekki tíminn núna fyrir arðgreiðslur hjá bönkunum, segir seðlabankastjóri

Umrót á erlendum fjármála- og lánamörkuðum þýðir að meiri ástæða en ella er fyrir íslensku viðskiptabankanna að gæta betur að lausafjárstöðu sinni. Eftir mikla útlánaþenslu eru merki um að bankarnir séu farnir að draga úr lánum sínum til fyrirtækja en þrátt fyrir að þeir standi afar sterkt, með betri eiginfjárstöðu en flestir evrópskir bankar, þá verða þeir að „leggja áherslu á gætni“ við þessar aðstæður, að sögn seðlabankastjóra.

Dýr erlend fjármögnun „áhyggjuefni“ og gæti þýtt verri lánakjör fyrir fyrirtæki

Það er „áhyggjuefni“ hvað fjármögnun bankanna á erlendum mörkuðum er orðin dýr og ef sú staða snýr ekki við á næstunni mun það að óbreyttu skila sér í versnandi lánakjörum fyrir íslenskt atvinnulíf, að sögn seðlabankastjóra. Hann segist ekki geta tjáð sig um umfangsmikil gjaldeyriskaup Landsbankans á millibankamarkaði á síðustu mánuðum og hvort þau kunni að tengjast stórri afborgun bankans á erlendu láni sem er á gjalddaga á fyrri helmingi næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×