Enski boltinn

Jón Daði á skotskónum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Daði Böðvarsson
Jón Daði Böðvarsson Getty/Dave Howarth

Jón Daði Böðvarsson komst á blað er Bolton Wanderers lagði Barnsley í ensku C-deildinni í fótbolta í dag. Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley unnu Swansea í B-deildinni þarlendis.

Jón Daði var í byrjunarliði Bolton sem sótti Barnsley heim. Barnsley spilaði mestallan leikinn manni færri eftir að Mads Andersen, miðverði Barnsley, var vísað af velli á 11. mínútu. Í kjölfarið skoraði Dion Charles af vítapunktinum til að koma Bolton yfir. Jón Daði tvöfaldaði svo forystuna skömmu fyrir leikhlé.

Það var þá Kyle Dempsey sem innsiglaði 3-0 sigur Bolton eftir hlé. Sigurinn hefur mikið að segja en Bolton fer upp í fimmta sæti með 50 stig, jafn mörg og Barnsley sem fer sæti neðar vegna lakari markatölu. Liðin fjögur í 3.-6. sæti fara í umspil um sæti í B-deildinni að ári.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 54. mínútu er Burnley vann 2-1 útisigur á Swansea deild ofar. Hollenski bakvörðurinn Ian Maatsen skoraði bæði mörk Burnley í leiknum sem er efst í B-deildinni með 56 stig eftir 26 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×