Þetta kemur fram í minnisblaði Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sem lagt var fram á fundi skóla- og frístundaráðs á mánudaginn. Í minnisblaðinu er farið yfir stöðu Grandaborgar en húsnæði leikskólans var rýmt í haust vegna myglu og skolpmengunar.
Mygla greindist í húsnæði Grandaborgar við Boðagranda á vormánuðum en í haust kom í ljós að aðalorsök slæmra loftgæða væri skriðkjallari undir húsnæðinu og hönnun loftræstingar hússins.
Skólprör hafði farið í sundur og skólp seytlað ofan í jarðveg í kjallaranum en loftræstikerfið blásið lofti úr kjallaranum og inn í húsnæði leikskólans.
Ákveðið var að loka leikskólanum og flytja starfsemina á þrjá staði; í Ævintýraborg við Eggertsgötu (22 börn), Ævintýraborg við Nauthólsveg (15 börn) og í Kringluna 1 (27 börn).
Fram kemur í minnisblaði Helga að óanægju hafi gætt með þá ákvörðun að sundra leikskólanum en ekki hafi tekist að finna hentugt húsnæði til að halda öllum börnunum saman. Þá var einnig óánægja með staðsetningu leikskólastarfsins í Kringlunni.
Haldnir voru fundir með foreldrum og starfsmönnum en í minnisblaðinu segir að „óróleiki“ hafi komið upp í báðum hópum eftir að fréttir bárust af því að leikskólastjórinn hefði sagt upp störfum. Einhverjum hefði skilist sem svo að honum hefði verið sagt upp.
Í kjölfarið hefðu þrír starfsmenn í 2,5 stöðugildum sagt upp og fjölmargir foreldrar sent inn fyrirspurn um málið.
Leikskólastjórinn hafi hins vegar dregið uppsögn sína til baka í byrjun desember og með flutningi starfsemi leikskólans úr Kringlunni í Hagaborg sé þess vænst að sátt náist um starfsemi leikskólans, „þó ljóst megi vera að áskoranir fylgja þeirri stöðu sem uppi er varðandi húsnæðismál hans“.