Þverhyrnan kom í net Hafró þegar togað var á miklu dýpi, allt að 1.400 metrum. Fjölmargar lítt þekktar tegundir finnast þegar togað er svo djúpt, jafnvel þótt sumar séu nokkuð algengar, að því er segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.
Hún tilheyrir hyrnuætt af ættbálki kjaftagelgna. Flestir fiskar þess ættbálks eru djúpfiskar, ýmist botnfiskar eða botn- og miðsævisfiskar.
Hafró segir að þegar sjaldgæfir fiskar sem þessir finnist í leiðöngrum séu þeir frystir og skoðanir nánar á rannsóknastofu. Það tók Jónbjörn Pálsson, höfund bókarinnar Íslenskir fiskar sem er stofuninni innan handar við slíkar rannsóknir, aðeins nokkrar sekúndur að bera kennsl á þverhyrnuna.
Hyrnan hefur verið Jónbirni og Gunnari Jónssyni, meðhöfundi hans að bókinni, kunn um nokkurn tíma. Hún hefur meðal annars veiðst í leiðöngrum í Grænlandshafi, þar á meðal í Davissundi undan Vestur-Grænlandi og undan Ammasalik við Austur-Grænland. Einnig hefur hún veiðst djúpt vestur og suðvestur af Írlandi og vestan Njörvasunds. Eftir að þverhyrnan veiddist innan íslensku lögsögunnar geti hún nú talist til íslenskrar fiskafánu.