Innlent

Svaf á tösku­færi­bandi og vill aldrei aftur koma til Ís­lands

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjöldi fólks þurfti að gista á Keflavíkurflugvelli í nótt.
Fjöldi fólks þurfti að gista á Keflavíkurflugvelli í nótt. Sharon Duggan/Hallfríður Ólafsdóttir

Fjöldi fólks hefur kvartað yfir dvöl sinni á Keflavíkurflugvelli á samfélagsmiðlum síðustu daga. Fjöldi fólks þurfti að gista þar í nótt og sofa ýmist á gólfi eða húsgögnum flugvallarins. 

Á Twitter er allt morandi í fólki sem annað hvort situr eða hefur setið fast á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs. Flestir beina reiði sinni að flugfélaginu Icelandair. Þrjár vélar flugfélagsins lentu á flugvellinum í morgun og virðast hafa bæst í flóru þeirra ferðamanna sem dvöldu þar í nótt. 

Í gær var greint frá því að búið væri að aflýsa öllum morgunflugferðum félagsins til Evrópu og dagflugi til Tenerife, Las Palmas og Boston var seinkað. 

Einn farþegi, Shabab Saqib, sagði upplifun sína vera eina sú verstu á ævi sinni. Hann segir að stormurinn sé ekki vandamálið heldur hvernig Icelandair brást við. Sá farþegi birti þráð á Twitter um aðstæðurnar í nótt. 

Annar notandi svaraði þræði Saqib og birti mynd af manni sofandi á töskuvigt við innritunarborð á flugvellinum. 

Sami notandi birti aðra færslu og sagðist aldrei aftur ætla að koma til Íslands. Þá myndi hún segja vinum sínum að ferðast ekki til landsins. 

Einhverjir hafa gripið til þess að óska eftir umfjöllun erlendra fjölmiðla. Einn notandi segir að þeir sem fengu að lenda á vellinum í morgun þurfi nú að dúsa þar ásamt þeim sem gistu þar í nótt. 

Annar farþegi sem dvelur á flugvellinum bjó til hóp á samskiptaforritinu WhatsApp þar sem fólk getur nálgast nýjustu upplýsingar um veðrið og stöðuna. 

Keflavíkurflugvöllur hefur í gegnum árin nokkrum sinnum birst á listum yfir verstu flugvelli heims til að sofa á. Árið 2015 var flugvöllurinn valinn sá versti í heimi til að sofa á af vefnum Sleeping in Airports og árið 2016 sá þriðji versti. Síðan þá hefur flugvöllurinn reyndar ekki birst á topplistum vefsíðunnar.


Tengdar fréttir

Víðtækar lokanir og flugferðum frestað

Ekkert lát er á norðaustanáttinni sem leikið hefur landsmenn grátt síðan í gær. Vegir eru víða lokaðir og ákveðið hefur verið fresta fjölda flugferða. Fylgst verður með þróuninni í veðurvaktinni hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×