Innlent

Ævintýraleg helgi að baki hjá Þorbirni: „Þetta var bara endalaust“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá aðgerðum á Grindavíkurvegi. Margir lögðu leið sína í Bláa lónið í dag þrátt fyrir snjóbyl.
Frá aðgerðum á Grindavíkurvegi. Margir lögðu leið sína í Bláa lónið í dag þrátt fyrir snjóbyl. aðsend

Steinar Þór Kristinsson, frá björgunarsveitinni Þorbirni á Grindavík, telur að fjölmargir ferðamenn hafi misst af flugferðum af landi brott um helgina. Fleiri hundruð manns var komið til bjargar. „Þetta var bara endalaust,“ segir Steinar Þór.

Segja má að stærsta einstaka verkefni helgarinnar á Suðurnesjunum hafi verið á Grindavíkurvegi. Þar festi hver ferðamaðurinn á fætur öðrum sig, margur á leiðinni í Bláa lónið.

„Helgin var ævintýri. Þetta var alveg ótrúlega stórt. Það er ekki hægt að segja annað,“ segir Steinar Þór sem var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Við fengum gríðarlega margt fólk sem við þurftum einhvern veginn að halda utan um.“

Hann telur fleiri hundruð bíla hafa setið fasta á Grindavíkurvegi. Fjöldahjálparstöð var opnuð í húsakynnum Þorbjörns. Þegar hún fylltist var íþróttamiðstöðin í Grindavík opnuð. Auk þess hafi verið um fimm hundruð manns í Bláa lóninu.

„Þetta var bara endalaust. Að langstærstum hluta erlendir ferðamenn,“ segir Steinar Þór.

Margir hafi verið stressaðir út af flugferðum sínum og gistingu. Einhverjir hafi dvalið yfir nótt í íþróttamiðstöðinni. Margir hafi misst af flugferðum sínum.

Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri í vettvangsstjórn almannavarna.Vísir/Egill

„Ég geri fastlega ráð fyrir því. Margt fólk átti flug um morguninn en var fast í Grindavík og allt dótið á hóteli í Reykjavík,“ segir Steinar.

Þótt björgunarsveitin hafi verið meðvituð um veðurspána hafi hún ekki átt von á því sem varð.

„Sagan segir okkur að gera ráð fyrir öllu, gera ráð fyrir því versta en vona það besta.“

Engir bílar eru fastir á Grindavíkurvegi sem stendur. Björgunarsveitarfólk úr Grindavík aðstoðar nú félaga sína á Suðurnesjum í verkefnum á Reykjanesbraut.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×