Segja má að stærsta einstaka verkefni helgarinnar á Suðurnesjunum hafi verið á Grindavíkurvegi. Þar festi hver ferðamaðurinn á fætur öðrum sig, margur á leiðinni í Bláa lónið.
„Helgin var ævintýri. Þetta var alveg ótrúlega stórt. Það er ekki hægt að segja annað,“ segir Steinar Þór sem var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Við fengum gríðarlega margt fólk sem við þurftum einhvern veginn að halda utan um.“
Hann telur fleiri hundruð bíla hafa setið fasta á Grindavíkurvegi. Fjöldahjálparstöð var opnuð í húsakynnum Þorbjörns. Þegar hún fylltist var íþróttamiðstöðin í Grindavík opnuð. Auk þess hafi verið um fimm hundruð manns í Bláa lóninu.
„Þetta var bara endalaust. Að langstærstum hluta erlendir ferðamenn,“ segir Steinar Þór.
Margir hafi verið stressaðir út af flugferðum sínum og gistingu. Einhverjir hafi dvalið yfir nótt í íþróttamiðstöðinni. Margir hafi misst af flugferðum sínum.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því. Margt fólk átti flug um morguninn en var fast í Grindavík og allt dótið á hóteli í Reykjavík,“ segir Steinar.
Þótt björgunarsveitin hafi verið meðvituð um veðurspána hafi hún ekki átt von á því sem varð.
„Sagan segir okkur að gera ráð fyrir öllu, gera ráð fyrir því versta en vona það besta.“
Engir bílar eru fastir á Grindavíkurvegi sem stendur. Björgunarsveitarfólk úr Grindavík aðstoðar nú félaga sína á Suðurnesjum í verkefnum á Reykjanesbraut.