Körfubolti

Skorar á Brilla og Matta að taka fram skóna og bjarga KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson og Matthías Orri Sigurðarson eftir að KR sló Val út úr úrslitakeppninni árið 2021.
Brynjar Þór Björnsson og Matthías Orri Sigurðarson eftir að KR sló Val út úr úrslitakeppninni árið 2021. Vísir/Bára

KR-ingar sitja á botni Subway deildar karla í körfubolta og meira að segja bjartsýnustu KR-ingar hljóta að vera farnir að hafa miklar áhyggjur af því að liðið falli úr deildinni í vor.

KR-liðið hefur tapað níu af tíu leikjum sínum þar af öllum sex heimaleikjum sínum.

Þetta er fyrsta tímabilið eftir að Brynjar Þór Björnsson setti skóna upp á hillu en áður hafði hann slegið öll met KR hvað varðar leiki, stig, þrista og sigra.

Sævar Sævarsson, sérfræðingur í Subway Körfuboltakvöldi, skoraði á þá Brynjar og Matthías Orra Sigurðarson að taka fram skóna og bjarga KR-ingum í þessari slæmu stöðu.

„Ég held að það sem gæti bjargað KR væri að Brynjar Þór Björnsson og Matti Sig mæti bara á gólfið um jólin, æfi með KR um jólin og spili svo bara eftir áramót. Geri það að verkum að þetta KR-lið haldi sér uppi,“ sagði Sævar Sævarsson.

„Það gæti bjargað KR því þá koma þeir með hugarfarið, þá koma þeir með gæðin og þá koma þeir með KR-hjartað sem þetta lið þarf klárlega á að halda til þess að halda sér uppi í deildinni,“ sagði Sævar.

„Ef þeir koma ekki og þeir finna ekki einhverja íslenska leikmenn til þess að bæta gæðaleysið sem er þarna þá gæti ekki einu sinni Böðvar bjargað þeim,“ sagði Sævar.

„Ég kalla bara á Brilla og Matta að taka hálft tímabil. Þeir sleppa við úrslitakeppnina og það eina sem þeir þurfa að gera er að bjarga KR-liðinu frá falli,“ sagði Sævar.

Hér fyrir neðan má sjá frekari umræðum um þetta úr Subway Körfuboltakvöldi.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld: Áskorun á Brilla og Matta að bjarga KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×