Menning

„Jafnvel við stjórnmálamenn getum verið skapandi“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir Vísir/Vilhelm

Í seinasta mánuði kom út glæpasagan Reykjavík en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði bókina Ragnari Jónassyni rithöfundi. Bókin hefur hlotið verðskuldaða athygli enda ekki á hverjum degi sem stjórnmálamaður sendir frá skáldsögu á meðan setið er í embætti.

Katrín var í viðtali hjá Euronews á dögunum og ræddi þar meðal annars um bókaskrifin.

Katrín segir í viðtalinu að hún hafi alltaf haft gaman af glæpum og þegar hún útskrifaðist úr bókmenntafræði á sínum tíma skrifaði hún lokaritgerð um glæpasögur. Það var á þeim tíma þegar íslenskar glæpasögur voru fyrst að byrja að ryðja sér til rúms.

„Og mig hefur lengi dreymt um að skrifa mína eigin skáldsögðu en ég hefði án efa ekki látið verða af því ef að ég hefði ekki haft meðhöfund sem ýtti mér áfram og sagði: „Við gerum þetta saman!“

Ég verð að viðurkenna að mér fannst mjög gaman að skrifa hana og ég held að jafnvel við stjórnmálamenn getum verið skapandi. Ég held að það sé mjög gott fyrir okkur, vegna þess að stundum erum við ekki mjög skapandi í pólitíkinni!“ segir Katrín í viðtalinu.

Katrín skrifaði bókina á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir.

„Ég var algjörlega heltekin af veirunni og var hálfpartinn komin með vírusinn og afleiðingarnar og aðgerðirnar á heilann,“ segir hún og bætir við að það hafi í raun bjargað geðheilsu sinni í heimsfaraldrinum að hafa hliðarverkefni sem hún gat gripið seint á kvöldin eða þegar hún átti lausa stund. Mælir hún með slíku fyrir alla, og ekki einungis stjórnmálamenn.

„Við erum kannski ekki öll að fara að skapa einhver stór listaverk en ég held að það sé mjög hollt að leggja rækt við og næra þessa skapandi hlið sem ég held að við búum öll yfir. Ég held að við gerum ekki nógu mikið af því.“

Fjölbreytnin er ekki slæm

Í viðtalinu við Katrínu er einnig komið inn á íslenska kvikmyndagerð, stríðið í Úkraínu og jafnrétti á Íslandi. Katrín er meðal annars spurð hvort hún sé hlynnt því að hafa kynhlutlausa flokka á verðlaunahátíðum.

„Ég held að fjölbreytni sé lykilatriðið í þessu. Við erum ekki einungis með karlmenn og konur, við erum líka með mismunandi gerðir af fólki. Hér á Íslandi erum við með tiltölulega nýja löggjöf um kynbundið sjálfræði sem kveður á um að það sé réttur einstaklinga að velja sitt eigið kyn.

Ég held að meiri fjölbreytni sé ekki slæm fyrir karla og konur. Ég held að við verðum einfaldlega að taka undir með þeirri staðreynd að heimurinn er fullur af ólíku fólki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.