Neyðarlögin gilda um allt landið í þrjátíu daga. Luis Otarola Peñaranda, varnarmálaráðherra, vísaði til þess að nauðsynlegt væri að grípa til ákveðinna aðgerða til að bregðast við skemmdarverkum, ofbeldi og vegartálmum sem mótmælendur hafa sett upp.
Lögreglan og herinn fær heimild til þess að leita á heimilum fólks án leyfis eða réttarheimildar. Otarola segir að ekki hafi ákveðið hvort að útgöngubanni verði komið á. Að minnsta kosti sjö manns hafa látist í mótmælunum.
Mótmælendur hafa meðal annars sett upp vegartálma í höfuðborginni Lima og í mörgum smærri bæjum og þorpum. Þeir hafa kveikt í lögreglustöðvum, hertekið flugvöll flughersins og rutt sér leið inn á flugbraut alþjóðaflugvallar í Arequipa sem er mikilvægur ferðaþjónustunni í landinu.
Þeir krefjast þess að Castillo verði sleppt úr haldi en hann er sakaður um spillingu og að reyna að ræna völdum í landinu. Þá vilja þeir að boðað verði til kosninga tafarlaust.
Dina Boluarte, varaforsetaefni Castillo sem tók við af honum, hefur gert að því skóna að kosið verði í desember á næsta ári.
Castillo ætlaði að leysa upp þingið áður en það gæti greitt atkvæði um að kæra hann fyrir embættisbrot í þriðja skipti. Þess í stað veik þingið honum úr embætti. Castillo var handtekinn og sakaður um að ætla að sækjast eftir pólitísku hæli í mexíkóska sendiráðinu.