Í seinasta þætti af hlaðvarpi Handkastsins sagðist Arnar Daði Arnarsson, stjórnandi þáttarins, hafa heimildir fyrir því að Rúnar myndi að öllum líkindum yfirgefa ÍBV eftir tímabilið og næsti áfangastaður hans gæti verið Seltjarnarnesið.
Arnar sagðist einnig hafa fengið orð af því að Valsmenn vildu fá Rúnar í sínar raðir þar sem liðið býst við því að missa Arnór Snær Óskarsson út í atvinnumennsku að tímabilinu loknu, en að Íslandsmeistararnir hafi ekki enn haft samband við stórskyttuna. Samkvæmt heimildarmönnum Arnars höfðu tvö lið haft samband við Rúnar, Grótta og annað ónefnt lið sem Arnar giskaði á að væri Stjarnan.
Rúnar birti þó færslu á Twitter-síðu sinni fyrr í dag þar sem hann blæs á þessar sögusagnir. Rúnar fer ekki mörgum orðum um ummælin og segir einfaldlega: „Það hefur enginn haft samband.“
Það hefur enginn haft samband
— Rúnar Kárason (@runarkarason) December 13, 2022
Í stuttu spjalli við blaðamann Vísis í dag staðfesti Rúnar að þarna væri hann vissulega að vísa í ummæli Arnars í Handkastinu. Aðspurður að því hvort hann væri á förum frá ÍBV sagðist hann ekki ætla tjá sig neitt um það á þessum tímapunkti. Hann ítrekaði þó að hann hafi ekki átt neitt samtal við annað lið en ÍBV, enda sé hann samningsbundinn Eyjaliðinu og önnur lið megi því einfaldlega ekki ræða við hann.
„Nei það hafa engin lið haft samband við mig,“ sagði Rúnar í samtali við Vísi.
„Enda mega þau ekkert hafa samband núna. Það er ekki fyrr en eftir áramót sem það væri hægt.“