Erlent

Vara­for­seti Evrópu­þingsins grunaður um spillingu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hin gríska Eva Kaili er ein fjórtán varaforseta Evrópuþingsins.
Hin gríska Eva Kaili er ein fjórtán varaforseta Evrópuþingsins. Getty/Vladimir Rys

Evu Kaili, einni af fjórtán varaforsetum Evrópuþingsins, hefur verið vikið úr stjórnmálaflokk sínum í heimalandinu vegna gruns um spillingu. Henni hefur einnig verið vikið úr þingflokknum á Evrópuþinginu. 

Belgíska lögreglan gerði í gær húsleit á sextán heimilum og hneppti fjóra einstaklinga í gæsluvarðhald. Talið er að einstaklingarnir hafi tekið þátt í þrýstihópsstarfsemi fyrir Katar í aðdragandanum að heimsmeistaramótinu í fótbolta sem fram fer þar í landi um þessar mundir. 

Í grein Politico um málið segir að Katarar hafi greitt meðlimum Evrópuþingsins og öðru áhrifafólki innan Evrópusambandsins mútur og gefið þeim gjafir ef þau myndi takmarka gagnrýni sína á Katar og ekki taka þátt í efnahagslegum aðgerðum gegn ríkinu. 

Við húsleitirnar lagði lögreglan hald á tæplega níutíu milljónir króna, farsíma og annan tölvubúnað. Lögreglan telur að um nokkurt skeið hafi katörsk yfirvöld haft áhrif á ýmis mál innan Evrópusambandsins í gegnum fólkið. 

Kaili er sú valdamesta af þeim sem gerð húsleit var hjá en hún situr á þinginu fyrir vinstri flokkinn Sósíalistar og demókratar. Þá hefur hún verið meðlimur gríska flokksins Pasok. Henni hefur verið vikið úr báðum flokkum. Meðal þess sem Kaili sagði á þinginu var að Katarar væru „framúrskarandi í réttindum verkamanna“ eftir að hafa hitt vinnumálaráðherra landsins. 

Hvorki Kaili né yfirvöld í Katar hafa viljað svara fjölmiðlum um málið hingað til. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×