Sport

BKG sér rómantíkina í lyftingunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson og rauða rósin sem er auðvitað tákn rómantíkurinnar.
Björgvin Karl Guðmundsson og rauða rósin sem er auðvitað tákn rómantíkurinnar. Instagram/@bk_gudmundsson

Besti CrossFit maður Íslands sér það fallega við ólympískar lyftingar sem hann stundar af kappi með öðrum æfingum þegar hann undirbýr sig fyrir komandi CrossFit tímabil.

Gríðarleg átök og feiknalegur kraftur. Björgvin Karl Guðmundsson er í hópi þeirra íslenskra íþróttamanna sem geta þrykkt upp alvöru þyngdum.

Björgvin Karl sýndi frá því á samfélagsmiðlum sínum þegar lyfti 170 kílóum i jafnhendingu á dögunum.

Björgvin Karl sagðist hafa lyft 170 kílóum í frívendingu áður en nú bætti hann jafnhöttuninni við.

„Það er einhvern vegin svo mikil rómantík við lyftingarnar. Tvær lyftur sem skipta máli. Endalausir klukkutímar í æfingar til að verða sterkari, vinna í tækni, hreyfanleika, tímasetningu og svo framvegis,“ skrifaði Björgvin Karl og sýndi sig fara upp með 170 kíló.

Björgvin Karl keppti á sínum níundu heimsleikum í ár og endaði í níunda sæti. Hann hefur verið meðal þeirra tíu bestu í heimi undanfarin átta ár þar af þrisvar á palli.

Hér fyrir neðan má sjá lyftuna hjá okkar manni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×