Sport

Sú besta leggur skautana á hilluna að­eins nítján ára gömul

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aldís Kara Bergsdóttir hefur ákveðið að kalla þetta gott sem listskautari.
Aldís Kara Bergsdóttir hefur ákveðið að kalla þetta gott sem listskautari. Youtube

Aldís Kara Bergsdóttir, besti listskautari Íslands undanfarin ár, hefur ákveðið að leggja skautana á hilluna þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gömul.

Aldís Kara hefur undanfarin þrjú ár hlotið nafnbótina „íþróttakona Akureyrar“ og þá var hún kjörin „skautakona ársins“ á síðasta ári eftir sögulegt ár.

Hún greindi frá ákvörðun sinni á Instagram-síðu sinni í dag. Þar segir hún meðal annars:

„Listskautar hafa verið allt mitt líf síðan ég steig á ísinn í fyrsta skiptið og nú eftir 15 ára feril hef ég tekið þá ákvörðun að leggja skautana á hilluna.“

„Ég er svo ótrúlega stolt af öllu sem ég hef áorkað, að ná þeim markmiðum að vera fyrsti íslenski skautarinn til að ná lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga, Evrópumeistaramót fullorðna og að vera valin íþróttakona Akureyrar síðastliðin 3 ár. Þetta eru draumar sem litlu Aldísi hefði aldrei dottið í hug að hún myndi ná.“

Þá þakkar hún stuðningsneti sínu ásamt Skautasambandi Íslands og Skautafélagi Akureyrar fyrir allan stuðninginn. Færslu Aldísar Köru má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×