Fótbolti

Pelé á sjúkrahús en dóttirin biður fólk að örvænta ekki

Sindri Sverrisson skrifar
Pelé var fluttur á sjúkrahús í dag en dóttir hans segir ekki um neyðarástand að ræða.
Pelé var fluttur á sjúkrahús í dag en dóttir hans segir ekki um neyðarástand að ræða. Getty

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé, sem glímir við krabbamein, var fluttur á sjúkrahús í dag en dóttir hans segir fréttaflutning ýktan og að ekki sé um neyðarástand að ræða.

ESPN í Brasilíu sagði að Pelé hefði verið fluttur á Albert Einstein sjúkrahúsið í Sao Paulo, með miklar bólgur og að þar gengist hann undir rannsóknir til að greina betur stöðuna. 

„Mikil læti í fjölmiðlum í dag varðandi heilsu pabba míns. Hann er á sjúkrahúsi þar sem verið er að kanna lyfjagjöf. Það er engin neyð eða óvænt staða komin upp. Ég kem um áramótin og lofa að birta einhverjar myndir,“ skrifaði Kely Nascimento, dóttir Pelé, á Instagram.

Pelé er 82 ára gamall. Hann hefur reglulega verið á sjúkrahúsi síðustu misseri eftir að æxli var fjarlegt úr ristli hans í september í fyrra. 

ESPN í Brasilíu sagði að Pelé væri að glíma við hjartavandamál og að starfsfólk hans hefði áhyggjur af því að krabbameinslyfjameðferð væri ekki að skila árangri. Hvorki umboðsmaður hans né fulltrúar Albert Einstein sjúkrahússins hafa tjáð sig að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×