Körfubolti

„Við erum ekki að biðja um að fá jafnmikið borgað og karlarnir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelsey Plum varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu á dögunum aðeins nokkrum vikum eftir að hún varð WNBA-meistari.
Kelsey Plum varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu á dögunum aðeins nokkrum vikum eftir að hún varð WNBA-meistari. Getty/Mark Metcalfe

Það er gríðarlega mikill munur á því að hvað leikmenn í NBA-deildinni og leikmenn í WNBA-deildinni eru að fá borgað í laun fyrir vinnu sína. Einn af bestu leikmönnum WNBA-deildarinnar á síðasta tímabili hefur lagt inn sín sjónarmið í umræðuna.

Skiljanlega þykir körfuknattleikskonum í WNBA-deildinni á sér brotið þegar þær horfa upp á risalaun kollega þeirra í karladeildinni á sama tíma og þær eru aðeins að fá brotabrot af þeim.

Munurinn er gríðarlegur og í raun algjörlega út í hött þótt að vinsældir NBA séu auðvitað miklu miklu meiri.

Stephen Curry, ein stærsta stjarnan í NBA-deildinni, fær 48 milljónir dollara fyrir þetta tímabil. Hann er að fá 216 sinnum meira heldur en meðallaun leikmanns í kvennadeildinni.

Ef við deilum launum Curry niður á leiki þá er hann að fá 700 þúsund dollara fyrir hvern leik. Stórstjörnur í WNBA, eins og þær Elena Delle Donne og Skylar Diggins Smith fá 222 þúsund dollara útborgað fyrir allt tímabilið.

WNBA deildin er að auka vinsældir og sýnileika sinn sem vonandi hjálpar til að minnka þetta fáránlega bil sem fyrst.

Nú hefur Kelsey Plum, leikmaður WNBA-meistara Las Vegas Aces og einn af fimm leikmönnum í liði ársins á síðustu leiktíð, tjáð sig um þetta launabil milli kynjanna í NBA og WNBA. Hún varð líka heimsmeistari með bandaríska landsliðinu í haust.

„Við erum ekki að biðja um að fá jafnmikið borgað og karlarnir. Við erum að biðja um að fá sama hlutfall af tekjum félaganna og karlarnir eru að fá,“ sagði Kelsey Plum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hún nefnir sem dæmi að hún fái ekkert þegar treyja með nafni hennar er seld en karlarnir fá aftur á móti tekjur af því, aukatekjur ofan á gríðarleg laun.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×