Innlent

Ljós Oslóartrésins tendruð

Árni Sæberg skrifar
Frá síðustu hefðbundnu tendrunarathöfninni, sem haldin var árið 2019.
Frá síðustu hefðbundnu tendrunarathöfninni, sem haldin var árið 2019. Stöð 2/Einar

Ljós Oslóartrésins verða tendruð við hátíðlega athöfn á Austurvelli klukkan 16 í dag, fyrsta sunnudag í aðventu. 

Mikið verður um dýrðir þegar hægt verður að tendra ljósin með hefðbundinni athöfn í fyrsta skipt í þrjú ár. 

Lúðrasveit Reykjavíkur mun leika aðventu- og jólalög frá kl. 15.30 og tröllið Tufti verður á svæðinu og gleður gesti fyrir athöfnina. Þau Sigríður Thorlacius og Valdimar munu flytja falleg jólalög ásamt hljómsveit.

Þá munu jólasveinar stelast til byggða, syngja og skemmta viðstöddum, hefðinni samkvæmt.

Kynnir athafnarinnar er Katla Margrét Þorgeirsdóttir og dagskráin verður túlkuð á táknmáli.

Hinn 9 ára gamli norsk-íslenski Sander Snær Seim Sigurðsson mun aðstoða Dag B. Eggertsson borgarstjóra við að tendra ljósin á trénu. Þá mun borgarfulltrúi frá Osló, Hallstein Bjercke, afhenda borgarstjóra bókargjöf frá Oslóarborg og öll skólabókasöfn í Reykjavík fá einnig bækur að gjöf, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg um athöfnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×