Fótbolti

Yfirvöld gefa Sádum frí til að fagna sigrinum óvænta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sádar unnu vægast sagt óvæntan sigur gegn Argentínu á HM í dag og íbúar landsins fá frí frá vinnu að launum.
Sádar unnu vægast sagt óvæntan sigur gegn Argentínu á HM í dag og íbúar landsins fá frí frá vinnu að launum. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa gefið öllum landsmönnum frí frá vinnu á morgun til að fagna óvæntum sigri liðsins gegn Argentínu á Heimsmeistaramótinu í Katar í dag.

Eftir að hafa verið 1-0 undir þegar flautað var til hálfleiks í leik Sádi-Arabíu gegn Argentínu í fyrsta leik dagsins vann liðið afar óvæntan 2-1 sigur. Raunar voru svo fáir sem bjuggust við sigri Sádanna að tölfræðiveitan Gracenote sá sig knúna til að reikna út líkindi sigursins og tilkynna það að þetta væri í raun óvæntasti sigur á HM frá upphafi.

Til að gefa fólkinu í landinu tækifæri til að fagna þessum sigri landsliðsins hafa yfirvöld í Sádi-Arabíu ákveðið að gefa öllum landsmönnum frí frá vinnu á morgun.

„Sú ákvörðun hefur verið tekin að á morgun, miðvikudag, munu allir starfsmenn fá frí frá vinnu, bæði hjá ríkinu og í einkageiranum, ásamt bæði karlkyns og kvenkyns nemendum,“ sagði í yfirlýsingu frá Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×