Sport

Sara skellti sér í flugnám á milli tímabila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir flýgur kannski sjálf á eitthvert CrossFit mótið í framtíðinni.
Sara Sigmundsdóttir flýgur kannski sjálf á eitthvert CrossFit mótið í framtíðinni. Instagram/@sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir er nú aftur komin á fulla ferð við æfingar í Dúbaí en það styttist í nýtt keppnistímabil og fyrsta mótið hjá Söru er Wodapalooza mótið í Miami í janúar.

Sara sagði frá ævintýrum sínum á milli keppnistímabila en þeir sem þekkja Suðurnesjakonuna vita að það er alltaf nóg að gera hjá henni á milli æfinga.

Hún hefur verið í fatahönnun auk auglýsingastarf og að stunda háskólanám.

Sara greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum í gær að hún sé nú byrjuð að læra að vera flugmaður.

„Tíminn milli tímabila var svolítið öðruvísi í ár,“ skrifaði Sara Sigmundsdóttir á Instagram.

„Ásamt því að æfa þá ákvað ég að eltast við einn af þeim hundrað hlutum sem ég vil gera í lífinu. Ég skráði mig í flugskólann til að læra að verða flugmaður,“ skrifaði Sara og birti mynd af sér í flugmannsfötunum.

„Ég hef átt þennan draum allar götur síðan ég vann hjá Icelandair löngu áður en ég fann CrossFit íþróttina,“ skrifaði Sara.

„Ég hef nú lokið fyrsta hluta námsins og því er kominn tími að verða aftur íþróttamaður í fullu starfi,“ skrifaði Sara og viðurkenndi að lokum að hún hefði enn ekki lært að gera bindishnút.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×