Innlent

Menningin blómstrar á Skagaströnd

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Eitt elsta hús Skagastrandar, Bjarmanes, sem hefur nú verið breytt í menningar- og samveruhús, en í húsinu hefur meðal annars verið barnaskóli, verslun og lögreglustöð.
Eitt elsta hús Skagastrandar, Bjarmanes, sem hefur nú verið breytt í menningar- og samveruhús, en í húsinu hefur meðal annars verið barnaskóli, verslun og lögreglustöð. Aðsend

Eitt elsta hús Skagastrandar, Bjarmanesi hefur nú verið breytt í menningar- og samveruhús, en í húsinu hefur meðal annars verið barnaskóli, verslun og lögreglustöð.

Það eru vinkonurnar G. Eva Guðbjartsdóttir og Erla María Lárusdóttir, sem búsettar eru á Skagaströnd, sem tóku málið í sínar hendur og stofnuðu menningar- og samveruhús í Bjarmanesi á Hólanesvegi. Ástæðan er sú að þeim fannst vanta vettvang þar sem hægt væri að ýta undir menningu, listir og samveru á Skagaströnd. 

„Þetta er svona óhagnað drifið menningarfélag, sem við vinkonurnar eru með ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Þetta á aðallega að taka utan um þessa þörf fólks að mæta á prjónakvöld, vera í félagsvist, hafa tónleika og listsýningar, bíó fyrir börnin og svona ýmislegt,“ segir G.Eva.

Vinkonurnar á Skagaströnd, þær G. Eva Guðbjartsdóttir og Erla María Lárusdóttir, sem eru að gera frábæra hluti á staðnum með opnun Bjarmanes.Aðsend

Vinkonurnar eru miklar félagsverur og menningarlega sinnaðar og hafa tröllatrú á að nýja menningarhúsið þeirra í Bjarmanesi eigi eftir að slá í gegn hjá heimamönnum.

En hvernig viðbrögð hafa þær fengið í samfélaginu við opnuninni?

„Mjög góð og ég held líka bara með tímanum að þá á fólk eftir að sjá hvað þetta er yndislegur staður til að vera á. Við fylltum húsið af gömlum húsgögnum og þetta er svo notaleg stemming og engin kvöð á fólki að borga fyrir eitt né neitt. Það er bara kaffi og te, sem við bjóðum upp á. Borgað er fyrir einstaka viðburði en að öðru leyti á þetta að vera hálfgerð félagsmiðstöð fyrir börn og aðra íbúa,“ bætir G. Eva við.

Útsýnið úr Bjarmanesi er einstaklega fallegt.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×