Banksy hafði ekki birt mynd af listaverki á Instagram síðan í ágúst á síðasta ári. Listaverkið sem hann birti mynd af í gær er í borginni Borodyanka í Úkraínu en borgin er vestur af Kænugarði, höfuðborg landsins. Rússar sprengdu borgina í gríð og erg við upphaf innrásar sinnar.
Listaverkið gerði Banksy á vegg eyðilagðrar byggingar. Á neðri hluta veggsins eru brotnir steypuklumpar. Verkið sjálft er af fimleikakonu sem stendur á höndum á steypuklumpunum.
Talið er að Banksy beri ábyrgð á fleiri verkum í Borodyanka. Eitt þeirra er mynd af litlum strák í júdó-galla að henda fullorðnum manni í jörðina. Fullorðni maðurinn líkist Vladímír Pútín, forseta Rússlands, ansi mikið. Annað verk er af tveimur börnum að nota skriðdrekagildru sem vegasalt.
