Sport

Sólveig fær að kynnast Z-stigakerfinu á CrossFit-móti í Las Vegas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sólveig Sigurðardóttir er í flottu formi og nær vonandi að sýna það í Las Vegas. Hún fær örugglega góða strauma að heiman.
Sólveig Sigurðardóttir er í flottu formi og nær vonandi að sýna það í Las Vegas. Hún fær örugglega góða strauma að heiman. Instagram/@solasigurdardottir

Sólveig Sigurðardóttir verður fulltrúi Íslands á Zelos Games CrossFit mótinu sem fer fram í Las Vegas um helgina.

Sólveig stimplaði sig inn á þessu ári með því að tryggja sér sæti á heimsleikunum í Madison þar sem hún endaði síðan í 34. sæti.

Sólveig hafði orðið áttunda í átta liða úrslitunum og í fjórða sæti í undanúrslitamótinu þar sem fimm efstu komust inn á leikana.

Nú fær Sólveig tækifæri til að sýna styrk sinn og hreysti í spilavítaborginni Las Vegas í Nevada-fylki í Bandaríkjunum.

Tólf konur og tólf karlar keppa á mótinu sem fer fram 12. og 13. nóvember. Zelos Games gefur síðan öllum heiminum tækifæri til að skrá sig til leiks og skila sínum æfingum inn eins og er gert í opna hlutanum í undankeppni heimsleikanna.

Þau geta séð hvernig þessi 24 gera æfingarnar og svo reynt að gera betur.

Stigakerfið verður nokkuð óvenjulegt en farið verður eftir svokölluðu Z-stigakerfi á þessu móti.

Það þýðir það að eftir því sem sigurinn er öruggari því meira munar á stigum sem keppendur fá úr viðkomandi grein.

Vanalega fær fyrsta sætið alltaf jafnmörg stig sem og annað sætið, þriðja sætið og svo framvegis.

Zelos Games segir frá stigakerfinu á samfélagsmiðlum sínum og koma með dæmi.

Ef þú vinnur grein og klárar hana á fjórum mínútum en sá í öðru sæti klárar á fimm mínútum þá er sá tuttugu prósentum hægari. Stigaskorið fyrir greinina mun taka mið af því.

Alveg eins ef fyrsta sætið er aðeins einni sekúndu á undan öðru sætinu þá fær fyrsta sætið hundrað stig en sá öðru sætinu gæti fengið 99,5 stig.

CRASH Crucible og The Tactical Games hafa notað þetta Z-stigakerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×