Margar kvartanir eru sagðar hafa verið sendar inn til umboðsmanns finnska þingsins eftir að myndböndum af forsætisráðherranum í samkvæmum var lekið á netið í ágúst. Einhverjar þeirra sneru að því að Sanna hefði átt að færa völd sín í hendur annarra tímabundið, þar sem hún væri að neyta áfengis í samkvæmum.
Sjá einnig: Konur dansa til stuðnings Sönnu
Samkvæmt frétt Yle, ríkisútvarpi Finnlands, tilkynnti Tuomas Pöysti, umboðsmaður finnska þingsins, í dag að Sanna, sem er 36 ára gömul, hefði ekki brotið neinar reglur.
Þar að auki segir hann að í engri af þeim kvörtunum sem bárust hafi verið tilgreint hvaða skyldur hennar forsætisráðherrann eigi ekki að hafa getað sinnt vegna samkvæmanna og neyslu áfengis í þeim.
Kvartanir bárust einnig vegna þess að Sanna Marin hafði boðið gestum sem ekki hafi farið gegnum öryggisskoðun í íbúð sína. Þar á meðal gestum sem tóku myndir af sér berar að ofan á salerni forsætisráðherrabústaðarins.
Umboðsmaðurinn segir þó að engar reglur segi til um að forsætisráðherra megi ekki bjóða fólki heim og halda einkasamkvæmi í forsætisráðherrabústaðnum.