Þetta segir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og stjórnarmaður í FÍ, í aðsendri grein á Vísi. Þar segir hann stjórn félagsins ekki hafa getað sætt sig við vinnubrögð Önnu Dóru og því borið að bregðast við.
Málefni Ferðafélagsins hafa verið mikið í fjölmiðlum síðustu misseri, fyrst í kjölfar þess að Helgi Jóhannesson, fyrrverandi yfirlögfræðingur hjá Landsvirkjun, sagði sig úr stjórn félagsins fyrir ári síðan. Það gerði hann í kjölfar þess að hafa sagt upp störfum hjá Landsvirkjun eftir að hafa fengið formlega áminningu í starfi fyrir hegðun sína gagnvart samstarfskonu.
Félagið komst svo aftur í fréttirnar þegar Anna Dóra, fyrsti kvenforseti FÍ, sagði af sér og sagði stjórnarhætti í félaginu ganga þvert á sín gildi. Sakaði hún Tómas um að hafa viljað koma Helga, vini sínum, aftur til starfa hjá félaginu og að ekki hefði verið tekið á ýmsum áreitismálum innan félagsins.
Í grein sinni segir Tómas að það sé ekki rétt að kynferðisofbeldi hafi verið þaggað niður af stjórn, líkt og Anna Dóra hefði haldið fram. Vissulega gæti Ferðafélagið gert betur en málum hefði ávallt verið vísað í skilgreinda farvegi innan félagsins.
Þá segir hann að á nýafstöðnum félagsfundi, þar sem vantraustsyfirlýsingu á stjórn var vísað frá með 85 prósent atkvæða, hafi það verið rakið „hvernig fyrrverandi forseti og nánustu stuðningsmenn hennar reyndu að ná völdum í félaginu, með ólýðræðislegum og ómaklegum hætti þar sem nokkrum stjórnarmönnum var m.a. hótað opinberum ærumeiðingum.“
„Það er ekkert sem rökstyður fullyrðingar um að hylmt hafi verið yfir kynferðisofbeldi af stjórn félagsins,“ segir Tómas.
„Fyrir það fyrsta fær stjórnin ekki slík mál á sitt borð auk þess sem stjórnin stóð einhuga með fyrrverandi forseta að því að innleiða nýjar og endurbættar starfsreglur varðandi einelti og kynferðisofbeldi í febrúar sl. Hefur öllum málum sem borist hafa félaginu síðan hefur verið vísað í þá farvegi sem þar eru tilgreindir. Um er að ræða tvö eineltismál og er annað þeirra kvörtun framkvæmdastjóra félagsins um einelti af hálfu forseta í sinn garð.“
Tómas segir ósatt að hann hafi barist fyrir endurkomu Helga. Hann hefði hins vegar vissulega tekið þátt í ferðum á vegum félagsins, enda hefði fyrrverandi forseti sagt það sjálfsagt.
„Ferðafélag Íslands er ekki hafið yfir gagnrýni og félagið getur klárlega gert betur í ofbeldis- og eineltismálum. Gagnrýni verður þó að vera málefnaleg og byggja á staðreyndum,“ segir Tómas.