Umræðan

Stór stökk í upplýsingagjöf um sjálfbærni

Hildur Flóvenz skrifar

Upplýsingagjöf fyrirtækja í sjálfbærni hefur vaxið á síðustu árum og umræða um hana aukist. Íslensk fyrirtæki hafa í auknu mæli veitt upplýsingar um nálgun sína að sjálfbærni og hvernig þau flétta hana inn í starfsemi sína.

KPMG á heimsvísu gaf nýlega út skýrslu um upplýsingagjöf fyrirtækja í sjálfbærni. Í skýrslunni eru dregnir fram þeir megin þættir sem góð upplýsingagjöf ætti að byggja á ásamt þeim umfjöllunarefnum sem alla jafna eru talin mikilvæg í umfjöllun um sjálfbærni. Skýrslan byggir á könnun á 100 stærstu fyrirtækjum í 58 löndum auk 250 stærstu fyrirtækja heims. Ísland er eitt af þeim 58 löndum sem tóku þátt í könnuninni og var því upplýsingagjöf 100 stærstu fyrirtækja landsins, miðað við tekjur, skoðuð.

Það er ánægjulegt að sjá að íslensk fyrirtæki hafa stórbætt sig í upplýsingagjöf í sjálfbærni frá því síðasta skýrsla var gefin út árið 2020. Nær öll fyrirtækin sem skoðuð voru hér á landi veittu upplýsingar um sjálfbærnimál sín eða 91% samanborið við 52% árið 2020. Rekja má þetta mikla stökk til breytinga á lögum um ársreikninga árið 2020 þar sem fyrirtækjum sem veita skulu ófjárhagslegar upplýsingar í ársreikningi sínum fjölgaði en má einnig gera ráð fyrir að aukinn þrýstingur frá fjárfestum, almenningi og öðrum haghöfum eigi þátt.

Nær öll fyrirtækin sem skoðuð voru hér á landi veittu upplýsingar um sjálfbærnimál sín, eða 91% samanborið við 52% árið 2020.

Þrátt fyrir þetta stökk í upplýsingagjöfinni sjálfri þá er staðan aðeins önnur þegar skoðað er á hverju upplýsingagjöfin byggir og hvaða upplýsingar eru veittar. Samanborið við meðaltal þeirra fyrirtækja sem skoðuð voru í heiminum var upplýsingagjöf íslensku fyrirtækjanna lakari í nánast öllum atriðum sem skoðuð voru. Ef litið er til þess á hverju upplýsingagjöfin byggir sést að töluvert vantar upp á að íslensku fyrirtækin séu á pari við meðaltalið. Sem dæmi upplýstu eingöngu 14% íslensku fyrirtækjanna um mikilvægisgreiningu í sjálfbærnimálum meðan yfir 70% fyrirtækjanna sem skoðuð voru á heimsvísu veittu slíkar upplýsingar. Þegar skoðað var hvort fyrirtæki byggðu upplýsingagjöf sína á opinberum viðmiðum eða stöðlum kom í ljós að yfir tveir þriðju hlutar fyrirtækjanna á heimsvísu studdust við staðla á borð við GRI á sama tíma og eingöngu ríflega þriðjungur fyrirtækjanna á Íslandi studdist við slíka staðla. Þess má geta að komandi löggjöf frá Evrópusambandinu um upplýsingagjöf í sjálfbærni er að miklu leyti byggð á viðameiri stöðlum á borð við GRI staðalinn.

Þegar upplýsingagjöf um loftlagsmál og markmið þeim tengdum er skoðuð kemur í ljós að færri fyrirtæki á Íslandi en að meðaltali á heimsvísu setja sér markmið um minnkaða losun gróðurhúsalofttegunda. Eingöngu ríflega helmingur fyrirtækjanna sem skoðuð voru á Íslandi höfðu sett sér slík markmið samanborið við um 75% fyrirtækjanna á heimsvísu. Þá var nokkur munur á hvort íslensk fyrirtæki tengja loftlagsmarkmið sín við Parísarsamkomulagið eða ekki. Auk þess hyggjast hlutfallslega fleiri fyrirtæki hér á landi ná loftlagsmarkmiðum sínum bæði með kolefnisjöfnun og minnkaðri losun en meðaltalið á heimsvísu þar sem yfir helmingur fyrirtækja á heimsvísu hyggjast ná markmiðum sínum eingöngu með því að draga úr losun.

Íslensk fyrirtæki eru nokkuð á eftir því sem gengur og gerist annars staðar þegar kemur að upplýsingagjöf í sjálfbærni.

Áhugavert var að sjá að rétt um 30% þeirra fyrirtækja sem skoðuð voru mátu loftlagsbreytingar sem áhættuþátt í starfsemi sinni og enn færri mátu félagslega þætti og stjórnarhætti sem áhættuþátt. Samanborið við meðaltal fyrirtækjanna á heimsvísu eru íslensku fyrirtækin nokkuð á eftir í þessum málum en fyrirtæki almennt á heimsvísu eiga þó enn talsvert í land að mikill meirihluti þeirra meti sjálfbærniáhættur í rekstri sínum.

Að lokum er vert að skoða hvernig íslensk fyrirtæki skilgreina ábyrgð á sjálfbærnimálum en það hefur sýnt sig að ef ábyrgðin liggur hjá æðstu stjórnendum eru meiri líkur á að betur gangi að flétta sjálfbærni í reksturinn. Á meðan tæplega 40% fyrirtækjanna á heimsvísu höfðu skilgreindan ábyrgðaraðila sjálfbærnimála í efsta stjórnunarlagi höfðu eingöngu 4% íslensku fyrirtækjanna sem til skoðunar voru gert hið sama. Íslensk fyrirtæki eru því nokkuð langt á eftir meðaltalinu á heimsvísu hvað þennan þátt varðar.

Af niðurstöðum skýrslunnar er ljóst að íslensk fyrirtæki eru nokkuð á eftir því sem gengur og gerist annars staðar þegar kemur að upplýsingagjöf í sjálfbærni. Fyrirtækjanna bíður fjöldi tækifæri til að taka sjálfbærnimálin fastari tökum og vera tilbúin fyrir það sem koma skal bæði í löggjöf og almennt í samræmi við auknar kröfur sem almenningur, neytendur, fjárfestar og aðrir hagaðilar gera til sjálfbærnimála fyrirtækja.

Höfundur er sérfræðingur í sjálfbærniteymi KPMG.




Umræðan

Sjá meira


×