Sport

Nýkrýndur Rogue meistari: Anníe, þú ert innblástur fyrir okkur öll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mæðgunar Anníe Mist og Freyja Mist.
Mæðgunar Anníe Mist og Freyja Mist. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir á sér aðdáendur á mörgum stöðum í CrossFit heiminum sem annars staðar enda fyrirmynd flestra þeirra yngri CrossFit kvenna sem keppa við hana í dag.

Laura Horvath vann sigur á Rogue Invitational mótinu í CrossFit um síðustu helgi en hún hafði betur í keppninni við Anníe Mist sem varð önnur. Laura er einn af mörgum aðdáendum íslenskum CrossFit goðsagnarinnar.

Anníe Mist sýndi og sannaði á mótinu í Texas að hún gefur ekkert eftir þrátt fyrir að vera að keppa á þriðja áratugnum og vera að keppa í fyrsta sinn í einstaklingskeppni í heilt ár.

Anníe gerði upp mótið sem nokkrum orðum á samfélagsmiðlum sínum en hún hóf keppni meðal þeirra bestu í CrossFit árið 2009 og er enn meðal þeirra allra bestu meira en þrettán árum síðar.

„Búin að keppa á þremur áratugum og elska enn hverja sekúndu. Stressið og adrenalínið á keppnisgólfinu og vinnusemin er það sem kemur mér þangað,“ skrifaði Anníe Mist.

„Ég var að keppa í þriðja sinn á Rogue mótinu og hef komist á verðlaunapallinn í öll skiptin. Auðvitað stefni ég alltaf á fyrsta sætið en ég er stolt af frammistöðu minni,“ skrifaði Anníe.

„Þessi frábæra helgi varð enn betri með fjölskyldu mína á hliðarlínunni. Ég elska að stiga inn á keppnisgólfið en það væri ekki þess virði ef ég gæti ekki upplifað það með þeim,“ skrifaði Annie.

Laura Horvath sá ástæðu til að skrifa kveðju við pistil Anníe. „Anníe, þú ert innblástur fyrir okkur öll,“ skrifaði nýkrýndur Rogue meistari og það eru örugglega margir í CrossFit heiminum sem taka undir það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×