„Það er ánægjulegt að rekstrarbati heldur áfram og rekstrarhagnaður eykst. Tekjuvöxtur á fyrstu 9 mánuðum árs nemur 8,7% og er drifinn áfram af aukningu í farsímatekjum og góðu gengi í fjölmiðlastarfseminni. Sýn er með fjölbreytta starfsemi og mikil sóknartækifæri til vaxtar og aukinnar framlegðar,“ segir Yngvi Halldórsson, sem tók við sem forstjóri Sýnar í lok september, í uppgjörstilkynningu.
Þá nefnir Yngvi að samkomulag við Ljósleiðarann, sem tilkynnt var um í september, hafi verið gæfuspor fyrir félagið og vinna að viðskiptunum gangi vel. Þar um að ræða annars vegar sölu á stofnneti upp á þrjá milljarða og hins vegar þjónustusamning við Ljósleiðarann til tíu ára.
Verkefni okkar er að gera Sýn að enn áhugaverðari fjárfestingakosti. Við viljum fjölga hluthöfum og stór þáttur í því er að lýsa vegferðinni og þeim verðmætum sem í félaginu felast.
„Við losum umtalsverða fjármuni en náum á sama tíma fram rekstrarhagræði. Félagið er því í góðri stöðu til að skila frekara fjármagni til eiganda,“ segir Yngvi í uppgjörstilkynningunni.
Þar kemur fram að viðskiptin muni skila hagkvæmari rekstri og lægri fjárfestingarþörf vegna þess að um sé að ræða beina sölu án endurleigukvaðar. Mat á bókfærðu virði eignanna sem til stendur að selja er tæplega 600 milljónir króna. Endanlegur söluhagnaður, sem gæti að óbreyttu verið um 2,4 milljarðar, liggur ekki fyrir þar sem áreiðanleikakönnun stendur enn yfir og kaup- og þjónustusamningur hafa ekki verið undirritaðir.
Áætlað er að ljúka samningum fyrir árslok 2022, og verður söluhagnaður færður í gegnum rekstur á söludegi.
Framlegð félagins á þriðja ársfjórðungi var rúmlega 2.020 milljónir og hækkaði um tæplega 8 prósent frá fyrra ári. Sé litið til fyrsti níu mánaða ársins nemur aukningin hins vegar um 17,6 prósentum.
Þá er nefnt í uppgjörstilkynningunni að tekjuvöxtur vegna IoT (hlutanets) og hjá dótturfélaginu Endor hafi haft jákvæð áhrif á niðurstöðu fyrstu níu mánaða ársins en hagnaðurinn nam 454 milljónum króna borið saman við tap upp á 176 milljónir á árinu 2021. „Þessar tekjustoðir vógu einnig þungt á þriðja fjórðungi 2021, en eru hins vegar sveiflukenndar innan ársins og torvelda beinan samanburð á milli fjórðunga. Áætlanir gera ráð fyrir auknum tekjum vegna þessara starfsþátta,“ segir í tilkynningunni.
Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var um 1.800 milljónir á fjórðungnum og minnkaði hann um tæplega fimm prósent frá sama tímabili í fyrra.
Yngvi nefnir að á síðustu þremur árum hafi orðið mikill viðsnúningur á starfsemi Sýnar og rifjar upp að talsverðar breytingar hafi orðið á undanförnum vikum með nýrri stjórn og ráðningu hans sem forstjóri í stað Heiðars Guðjónssonar sem seldi allan sinn eignarhlut í félaginu fyrr á árinu.
„Það er einhugur í okkur að byggja ofan á þann rekstrarbata sem orðið hefur. Við erum að koma fram með spennandi nýjungar í vöruframboðinu okkar þar sem sótt verður fram og á sama tíma að vinna í að bæta framlegð og reksturinn í heild. Við munum leggja áherslu á að lækka fjárfestingar í erlendum sýningarréttum og styrkja á sama tíma innlenda dagskrárgerð sem mun skila sér í áframhaldandi rekstrarbata. Við ætlum að sýna ábyrgð í rekstri.“
Þá segir Yngvi að verkefni félagsins sé að gera Sýn að „enn áhugaverðari fjárfestingakosti. Við viljum fjölga hluthöfum og stór þáttur í því er að lýsa vegferðinni og þeim verðmætum sem í félaginu felast. Það munum við kappkosta að gera á næstunni.”
Stjórn Sýnar hefur sem fyrr segir samþykkt kaup eigin bréfa fyrir allt að 300 milljónir króna en áætlað er að endurkaup hefjist í nóvember og muni standa fram að næsta aðalfundi í marsmánuði 2022, nema skilyrðum um hámarkskaup verði uppfyllt fyrir þann tíma.
Frá áramótum hefur hlutabréfaverð Sýnar lækkað um tæplega átta prósent en til samanburðar er Úrvalsvísitalan niður um 24 prósent. Markaðsvirði félagsins er í dag rúmlega 16 milljarðar króna.
Innherji er undir hatti Sýnar hf.