Þing Norðurlandaráðs hófst í Helsinki í Finnlandi í gær og lýkur á fimmtudag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir forsætisráðherra ríkjanna hafa rætt í gær um áætlun sem samþykkt var árið 2019 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði heims fyrir 2030.

„Svo er það stríðið sem er hér í raun og veru yfir og allt um lykjandi. Það má segja að þingið sé haldið í skugga innrásar Rússa í Úkraínu. Það er auðvitað mjög áberandi að þessi mál, utanríkis- og varnarmál, hafa kannski ekki mikið verið rædd á vettvangi Norðurlandaráðs en núna eru þau í algerum miðpunkti,“ segir Katrín.
Mikil samstaða ríki milli landanna í viðbrögðum við stríðinu í Úkraínu en einhver áherslumunur sé mili þeirra í loftslagsmálum þótt eining ríki um framtíðarsýnina. Verkefnið nái til þess sem hvert og eitt ríki geri á heimavelli en líka gagnvart umheiminum. Norðurlöndin væru í vaxandi mæli að styrkja önnur og fátækari ríki í loftslagsmálum.
„Sem einmitt þurfa þennan stuðning til að geta tryggt velsæld sinna íbúa og um leið dregið úr losun,“ segir forsætisráðherra.
Katrín tekur við formennsku í ráðherraráði Norðurlandaráðs á næsta ári og kynntu íslensku fulltrúarnir áherslur sínar á þinginu í gær varðandi loftslagsmálin og önnur mál. Að auki setji Ísland friðarmál á dagskrá sem hafi mælst vel fyrir.

„Við erum í raun og veru að segja út af stöðunni, þar sem notkun til dæmis kjarnavopna er skyndilega orðin eitthvað sem er rætt um eins og möguleika, hafi aldrei verið brýnna að ræða frið. Hvernig við getum tryggt frið í álfunni okkar, segir Katrín.
Áhrif stríðsins á íbúa Úkraínu og öryggi og velsæld íbúa allrar Evrópu birtist öllum glögglega um þessar mundir. Þess vegna muni Ísland setja friðarmálin í forgang og kalla fólk saman í Reykjavík.
„Við munum efna til alþjóðlegrar friðarráðstefnu í tilefni af okkar formennsku. Auðvitað má segja að friðurinn sé undirstaðan undir allt annað sem við erum að gera,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.