Innlent

Skráðar gistinætur aldrei fleiri og framboð á gistirýmum aldrei meira

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/Stöð 2

Skráðar gistinætur fyrstu níu mánuði ársins voru 7.144.438 og er þetta í fyrsta sinn sem fjöldinn fer yfir sjö milljónir. Framboð af gistirýmum hefur aldrei verið meira en í september síðastliðnum, eða 11.677 herbergi en þörf er á enn fleirum, að sögn framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

„Þótt þessi upp­bygg­ing hafi átt sér stað á síðustu árum sjá­um við að þörf­in er meiri, ekki síst úti á landi. Það má segja að það þurfi að minnsta kosti eitt meðal­stórt eða stórt hót­el á Aust­ur­landi, tvö slík á Norður­landi og sitt­hvort á norðan- og sunn­an­verðum Vest­fjörðum,“ hefur blaðið eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni.

Jóhannes segir að jafnvel þótt hingað komi færri ferðamenn en fyrir kórónuveirufaraldurinn dvelji þeir lengur. Bandaríkjamenn og ferðahópar frá Þýskalandi hafi til að mynda verið lengur en áður og þróunin sjáist glögglega á tölum frá bílaleigum, þar sem bifreiðarnar séu leigðar í lengri tíma.

„Það er mögulegt að það styttist í dvalarlengdinni. Þar gæti staða efnahagsmála í Evrópu t.d. haft áhrif. Orkuverð og mikil verðbólga hefur áhrif á kaupgetu fólks og tölur OECD sýna að hlutirnir virðast fremur á niðurleið en hitt,“ segir Jóhannes um horfurnar á næstunni. 

Hins vegar sé nokkuð um að hingað séu að koma sterkefnaðir Bandaríkjamenn og það sé hópur sem stríð og orkukreppa í Evrópu hafi ekki jafn mikil áhrif á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×