Fótbolti

Velska landsliðið vill skipta um nafn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale fagnar hér einu af fjörutíu mörkum sínum fyrir velska landsliðið.
Gareth Bale fagnar hér einu af fjörutíu mörkum sínum fyrir velska landsliðið. EPA-EFE/Peter Powell

Wales verður meðal þeirra 32 þjóða sem keppa um heimsmeistaratitilinn í fótbolta í Katar seinna í þessum mánuði. Það gæti aftur á móti verið nafnabreyting á leiðinni á velska landsliðinu.

Knattspyrnusamband Wales íhugar það nú að skipta um nafn eftir þetta heimsmeistaramót sem verður það fyrsta hjá Wales frá því í HM í Svíþjóð 1958.

Wales mun vissulega keppa undir merkjum Wales í Katar en eftir það gætum við verið að tala um landslið Cymru.

Cymru er velska nafnið yfir þjóðina og velska knattspyrnusambandið er þegar farið að nota það.

Noel Mooney, framkvæmdastjóri sambandsins, segir að möguleiki sé á því að Walesverjar elti Tyrkland í því að fá að breyta um nafn í alþjóðlegum keppnum. Tyrkland er í riðli með Wales í undankeppni EM 2024.

Tyrkland heitir ekki lengur Turkey í alþjóðlegum keppnum heldur fær nú að keppa undir Türkiye nafninu. Stjórnvöld í Ankara vildu að landliðið yrði þekkt alþjóðlega undir tyrkneska nafninu yfir þjóðina.

Framkvæmdastjórinn segir að það enn þá nokkuð mikil vinna eftir til að ganga frá lausum endum og því mun Wales verða Wales á HM í Katar.

Wales er í riðli með Englandi, Bandaríkjunum og Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×