Samkvæmt uppfjörstilkynningu Arion eftir lokun markaða í dag þá var arðsemi eiginfjár á fjórðungnum um 10,5 prósent en meðalspá sex greinenda, eins og Innherji hefur áður fjallað um, gerði ráð fyrir að arðsemin yrði um 12,8 prósent á tímabilinu. Sé hins vegar litið yfir fyrstu níu mánuði ársins þá var arðsemin 14,8 prósent.
Kjarnarekstur Arion – vaxta- og þóknanatekjur – voru á pari við væntingar og jukust um 19 prósent frá sama fjórðungi í fyrra. Þar munaði mestu um rúmlega 30 prósenta aukningu í vaxtatekjum sem voru samtals um 10.420 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi samhliða hækkandi vaxtastigi. Þá jókst vaxtamunur bankans á milli ára, úr 2,7 prósentum í 3,2 prósent.
Hækkandi vaxtastig endurspeglast að öðru óbreyttu í auknum vaxtatekjum hjá bönkum en jafnframt hefur lánasafn þeirra almennt farið stækkandi eftir nokkurn lánavöxt, einkum til heimila á síðasta ári en að undanförnu hefur útlánaaukningin verið í meira mæli til atvinnufyrirtækja.
Lán Arion banka til viðskiptavina jukust um 11,6 prósent frá áramótum. Þar munar mest um lán til fyrirtækja, sem hafa vaxið um 15,6 prósent, á meðan lánavöxturinn til heimila er 8,5 prósent.
Meginorsökin að baki því að hagnaður Arion dregst mikið saman á milli ára eru minnkandi fjármunatekjur, bæði vegna hluta- og skuldabréfastöðu bankans og eins fjárfestinga Varðar, dótturfélags Arion. Fjármunatekjur Arion voru þannig neikvæðar um rúmlega 1.330 milljónir á fjórðungnum – yfir tvöfalt meira en greinendur höfðu spáð – borið saman við jákvæðar fjármunatekjur upp á 1.366 milljónir króna á sama tíma fyrir ári.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, segir að hann sé „nokkuð sáttur“ við afkomu bankans á þriðja fjórðungi, meðal annars með vöxtinn í kjarnatekjum og þróunin sé „almennt jákvæð“ í starfseminni.
„Neikvæð þróun á verðbréfamörkuðum undanfarna mánuði hefur hins vegar áhrif á fjármunatekjur samstæðunnar á fjórðungnum. Eiginfjárstaða bankans er áfram mjög góð og í gangi er endurkaupaáætlun upp á 5 milljarða króna og fyrir liggur samþykki eftirlitsaðila fyrir 5 milljarða endurkaupum til viðbótar. Í stuttu máli má segja að við séum á góðri leið með að ná fjárhagslegum markmiðum okkar fyrir þetta ár,“ segir Benedikt.
Þá bendir hann á að fjármögnunarstaða bankans sé góð eftir að hafa sótt um 300 milljónir evra á lánsfjármörkuðum í síðasta mánuði.
„Þá upphæð nýttum við að nokkru leyti til að greiða upp lán sem voru á gjalddaga á næsta ári. Þetta felur í sér að uppgreiðsluþörf bankans út næsta ár er óveruleg. Þá er lausafjárstaða bankans einnig mjög sterk og gefur okkur færi á að nýta þau tækifæri sem upp kunna að koma varðandi þróun eign fjár og efnahags bankans,“ að sögn Benedikt, sem bætir við:
„Ísland er um margt í ágætri stöðu þessi misserin, sérstaklega ef við berum okkur saman við okkar helstu nágrannalönd. Vegna innrásar Rússlands í Úkraínu glíma mörg þeirra við háa verðbólgu, ekki síst vegna hækkandi orkuverðs. Við hins vegar höfum okkar jarðvarma og vatnsafl og erum því sjálfbær í þeim efnum sem reynist okkur afar vel nú. Til viðbótar við lægri verðbólgu þá er margt jákvætt í okkar umhverfi og er til að mynda gert ráð fyrir góðum hagvexti á árinu og lágu atvinnuleysi. Við getum því leyft okkur að vera nokkuð bjartsýn á okkar umhverfi fyrir komandi vetur.“
Eiginfjárhlutfall Arion banka (CAR hlutfall) stóð í 23,1 prósenti í lok september sem er vel umfram kröfur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Eigið fé bankans nemur 186 milljörðum króna en það hefur lækkað um tæplega 29 milljarða áramótum vegna arðgreiðslna og kaupa á eigin bréfum.