Bjarni í banastuði felldi fyrrum félagana í Dusty

Snorri Rafn Hallsson skrifar
bjarni

Forsprakkar NÚ, þeir Bjarni og Clvr mættu fyrrum liðsfélögum sínum í Dusty í Mirage kortinu, en þeir sögðu skilið við Dusty eftir síðasta tímabil. Báðum liðum hefur vegnað vel á tímabilinu en með sigri gat NÚ jafnað Dusty að stigum á toppnum.

Leikurinn fór vel af stað fyrir NÚ þó Dusty hefði betur í hnífalotunni. NÚ vann fyrstu þrjár loturnar þar sem Ravle og Bl1ck fóru hamförum og var það ekki fyrr en líða fór á hálfleikinn að vörn Dusty fór að virka og liðið minnkaði muninn niður í 6-5 fyrir NÚ.

NÚ átti svo góðan sprett undir lokin og tryggði sér gott forskot, en þá var Bjarni farinn að gera verulega vart við sig. Dusty var í eintómum vandræðum með fjárhaginn og gat NÚ leyft sér að vera örlítið passívari og öruggari í aðgerðum sínum með góðum árangri.

Staða í hálfleik: Dusty 6 – 9 NÚ

Dusty hafði átt spretti í vörninni en því var ekki að skipta í sókninni. Vörn NÚ var gríðarlega þétt og raðaði liðið inn hverri lotunni á fætur annarri. Svo fór að Dusty náði ekki í eitt einasta stig í síðari hálfleik og hafa þessir margföldu Íslandsmeistarar munað fífil sinn fegurri. Það var því viðeigandi þegar Bjarni og Clvr innsigluðu sigurinn í 22. lotu og sýndu fyrrum liðsfélögum sínum hvað í þeim býr.

Lokastaða: Dusty 6 – 16 NÚ

Næstu leikir liðanna:

  • Viðstöðu – NÚ, þriðjudaginn 1. nóvember kl. 19:30
  • SAGA – Dusty, fimmtudaginn 3.nóvember kl. 19:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira