Innlent

Vill komast í sam­band við fleiri for­eldra dverg­vaxinna barna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mæðgurnar Hildur og Kristín Ósk.
Mæðgurnar Hildur og Kristín Ósk. Aðsend

Í dag er alþjóðlegur dagur dvergvaxinna. Kristín Ósk Bjarnadóttir vakti athygli á málinu í Reykjavík síðdegis í dag en dóttir hennar, Hildur, er með dvergvöxt. Kristín Ósk vill komast í samband við fleiri foreldra dvergvaxinna barna.

Hún segist ekki vita um mörg börn hér á landi sem eru með dvergvöxt eins og Hildur, sem er á tólfta aldursári.

„Hún, eða við, erum í Einstökum börnum. Við erum í sambandi við þrjár fjölskyldur sem eiga stráka sem eru mjög nærri henni eða nálægt í aldri. Og við höfum svona aðeins verið að bera saman bækur okkar en það væri rosa flott ef það væru fleiri hérna sem væru með dvergvöxt eða ættu börn sem eru með dvergvöxt; maður gæti sett eitthvað í gang - einhvern hóp,“ segir Kristín Ósk.

Hún segir mikilvægt að opna umræðuna um dvergvöxt en Kristín Ósk, Hildur og fjölskylda búa á Blönduósi. Hún segir Blönduós frábæran stað til að búa á og þau finni almennt ekki fyrir fordómum í bænum.

„Henni finnst ekki skemmtilegt að fara til dæmis ef við förum Suður – ef við förum í Smáralind eða Kringluna. Það er bara undantekningalaust, 80-90 prósent, jafnt börn sem fullorðnir sem snúa sér í hring. Og ef hún labbar á undan okkur þá verður maður svo var við þetta. Núna þegar hún er komin á þennan aldur þá finnst henni þetta óþægilegt,“ segir Kristín Ósk.

Hér er aðeins stiklað á stóru en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×