Sport

Björgvin Karl og Anníe Mist þurfa að byrja degi fyrr en planað var

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson og Anníe Mist Þórisdóttir sjást hér í góðum hópi.
Björgvin Karl Guðmundsson og Anníe Mist Þórisdóttir sjást hér í góðum hópi. Instagram/@bk_gudmundsson

Ísland mun eiga tvo flotta fulltrúa á Rogue Invitational stórmótinu í ár og mótshaldarar eru þegar byrjaðir að koma keppnisfólkinu á óvart.

Rogue Invitational er boðsmót fyrir stóran hluta af besta CrossFit fólki heims og Ísland á oftast öfluga keppendur á þessu móti. Að þessu sinni eru það Björgvin Karl Guðmundsson og Anníe Mist Þórisdóttir sem eru fulltrúar Íslands á mótinu.

Mótið fer fram í Austin í Texas fylki í Bandaríkjunum og átti upphaflega að hefjast föstudaginn 28. október.

Björgvin Karl og Anníe Mist eru náttúrulega bæði búsett á Íslandi og því liggur fyrir langt ferðalag fyrir mótið og nú verða þau kannski að leggja aðeins fyrr af stað.

Keppendur fengu nefnilega upplýsingar um það að keppnin muni hefjast degi fyrr eða á fimmtudeginum 27. október. Morning Chalk Up segir frá þessari breytingu á keppnisdagskránni.

Jafnframt því að fá að vita af mótið lengist um einn dag þá var passað upp á það að keppendur hafi réttan búnað með sér.

Það lítur út fyrir að það verði boðið upp á utanvegahlaup á fyrsta degi Rogue Invitational. Keppendur eiga að passa upp það að koma með gönguskó.

Nánari upplýsingar um fyrstu greinina fá keppendur þó ekki fyrr en á miðvikudeginum eða minna en sólarhring fyrir að allt fer í gang í Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×