Erlent

Sagði af sér bæjar­stjóra­em­bætti eftir skróp í Hörpu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Um tvö þúsund manns frá yfir sextíu löndum sóttu Hringborð norðurslóða. Bæjarstjóri smábæjar í Kanada, sem átti að mæta fyrir hönd bæjarins, sagði af sér í vikunni eftir að hafa skrópað á hringborðið. Hann lofar nú að endurgreiða bænum ferðakostnað sem nam um einni og hálfri milljón króna. 
Um tvö þúsund manns frá yfir sextíu löndum sóttu Hringborð norðurslóða. Bæjarstjóri smábæjar í Kanada, sem átti að mæta fyrir hönd bæjarins, sagði af sér í vikunni eftir að hafa skrópað á hringborðið. Hann lofar nú að endurgreiða bænum ferðakostnað sem nam um einni og hálfri milljón króna.  Vilhelm Gunnarsson

Fyrrverandi bæjarstjóri kanadísks smábæjar ætlaði sér að sækja Hringborð norðurslóða í síðustu viku og var ferð hans kostuð af bænum. Hann skrópaði hins vegar á hringborðið og lofaði því að endurgreiða bænum tæpa eina og hálfa milljón króna sem ferðin kostaði. Það hefur hann hins vegar enn ekki gert.

Kanadíska ríkisútvarpið greinir frá því að Kenny Bell, þá bæjarstjóri Iqaluit, hafi skipulagt ferð dagana 10.-17. október til þess að koma fram fyrir hönd bæjarins. Iqaluit er höfuðstaður kanadíska héraðsins Nunavut og þar búa um átta þúsund manns. 

Bæjaryfirvöld greindu í vikunni frá því að Bell hafi aldrei mætt í Hörpu þar sem Hringborð norðurslóða fór fram. 

Kenny Bell sagði af sér embætti á Twitter á þriðjudag en gaf ekki upp ástæðu fyrir því. Hann sagði þó að þar sem hann hafi ætlað sér að segja af sér hafi honum ekki fundist rétt að taka pláss á ráðstefnunni. Hann muni því endurgreiða bænum ferðakostnað.

Samvkæmt bæjaryfirvöldum kostaði ferð Bell tæplega eina og hálfa milljón króna, en hann hefur ekki endurgreitt kostnaðinn. 

Haft er eftir bæjarfulltrúa Iqaluit, Geoffrey Byrne, að málið verði nú tekið fyrir innan bæjarstjórnar og munu ákveða hvað verði gert, borgi Bell ekki til baka. Samkvæmt frétt CBC undirbúa yfirvöld nú næstu bæjarstjórnarkosningar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×