Truss tók við völdum sem forsætisráðherra þann 6. september síðastliðinn. Í gær tilkynnti hún að hún myndi segja af sér sem forsætisráðherra. Leiðtogakjör Íhaldsflokksins í næstu viku mun ákvarða hver tekur við af henni sem forsætisráðherra.
Það þýðir að forsætisráðherratíð hennar mun ekki telja fleiri daga en um það bil fimmtíu, sem verður met. Það er nefnilega umtalsvert styttri tími en sá tími sem George Canning, fyrrverandi methafi, sat sem forsætisráðherra Bretlands. Hann hafði verið forsætisráðherra í 119 daga þegar hann lést þann 8. ágúst árið 1927.
Fjölmiðlar víða um heim hafa gert sér mat úr þessum takmarkaða tíma sem Truss hefur haft úr að spila sem forsætisráðherra. Á vef New York Times er sérstaklega fjallað um kálhausinn fræga sem breski miðilinn Daily Star stillti upp við hliðina á mynd af Truss þann 14. október síðastliðinn.
Things that lasted longer than Liz Truss as Prime Minister:
— Best for Britain (@BestForBritain) October 20, 2022
- London 2012’s Olympic Torch Relay
- Last year’s Strictly Come Dancing
- Love Island this summer
- The Last Tory Leadership Election
- This lettuce ~AA pic.twitter.com/2Mb59s3XUG
„Mun Liz Truss endast lengur en þessi kálhaus?“, var yfirskrift beinnar útsendingar sem miðillinn birti á YouTube. Kálhausinn hafði betur þar sem hann var enn ferskur þegar Truss sagði af sér í gær.
Í frétt New York Times segir að Daily Star hafi með myndbandinu gripið orðalag fréttar í The Economist á lofti.
Í greininni var fjallað um erfiða byrjun á valdatíð Truss. Var því haldið fram að vegna byrjunarörðugleika strax fyrstu daga hennar í embætti og þeirrar staðreyndar að Bretar hafi nýtt drjúgan tíma í að syrgja Elísabetu II Bretlandsdrottningu hafi raunveruleg valdatíð hennar hafi aðeins staðið yfir í sjö daga.

„Eða um það bil endingartíma káls,“ sagði í greininni. Myndband Daily Star vakti gríðarlega athygli og hafa tugþúsundir horft á myndbandið.
Kim Kardashian, ostar og bið eftir vegabréfum
Aðrir fjölmiðlar hafa einnig verið í samanburðargír. Á vef Vice er bent á að hjónaband Kim Kardashian og Kris Humphries hafi enst lengur en Truss í embætti, eða 79 daga. Þá er bent að margar tegundir osta endist lengur en í fimmtíu daga, og að margir hverjir verði betri með aldrinum.
Vice bendir einnig á að það hafi í raun tekið lengri tíma fyrir Íhaldsflokkinn að velja Truss í embætti leiðtoga flokksins í sumar en valdatíð hennar stóð yfir. Íhaldsmenn tóku sér sjö vikur í það. Truss entist sem forsætisráðherra í um sex vikur.
Á vefsíðu The Mirror fær enski knattspyrnustjórinn Sam Allardyce, sem gjarnan er þekktur sem Big Sam eða Stóri-Sam, uppreist æru. Hann hreppti draumastarfið haustið 2016 eftir fræga útreið enska landsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu um sumarið.

Sam var hins vegar ekki lengi í paradís. Eftir að upp komst um spillingarmál tengd honum var honum sagt upp störfum undir lok september-mánaðar, eftir aðeins 67 daga í starfi.
Mirror bendir einnig á að það taki breska ríkisborgara lengri tíma að bíða eftir nýju vegabréfi en Truss entist í embætti. Áætlaður biðtími er um tíu vikur eða um 70 dagar.