Viðskipti innlent

Telja fjölda ferðamanna ná nýjum hæðum á næstu árum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það verður í nægu að snúast á Keflavíkurflugvelli ef spár á vegum Ferðamálastofu ganga eftir. Ferðamenn gætu verið helmingi fleiri árið 2030 en þeir voru metárið 2018.
Það verður í nægu að snúast á Keflavíkurflugvelli ef spár á vegum Ferðamálastofu ganga eftir. Ferðamenn gætu verið helmingi fleiri árið 2030 en þeir voru metárið 2018. Vísir/Vilhelm

Fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækir Ísland gæti sett nýtt met innan tveggja ára og náð tæpum þremur milljónum árið 2025. Raunhæft er talið að fjöldinn gæti náð þremur og hálfri milljón fyrir lok áratugsins.

Árið 2018 komu 2,3 milljónir ferðamanna til landsins og hafa þeir aldrei verið fleiri. Samkvæmt greiningu sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann fyrir hönd Ferðamálastofu gæti það met verið jafnað á næsta ári en svo slegið kirfilega á því þarnæsta. Þá gæti fjöldinn náð 2,8 milljónum. Þriggja milljóna múrnum gæti verið náð árið 2025.

Fyrirtækið framreiknaði einnig mögulega þróun ferðamannastraumsins út áratuginn en töluvert meiri óvissa er sögð ríkja um þá útreikninga. Samkvæmt þeim er talið raunhæft að erlendir ferðamenn gætu náð 3,5 milljónum árið 2030 en það væri um helmingi fleiri en metárið 2018. Skýrsluhöfundar telja að fjöldinn gæti hæglega orðið enn meiri ef mikil aukning verður í framboði á flugferðum til landsins.

Heildarfjöldi gistinátta erlednra ferðamanna er talinn geta náð tæplega 4,5 milljónum í ár og tæplega 5,5 milljónum á næsta ári. Um miðjan áratuginn gæti fjöldi nátta náð 6,7 milljónum.

Spáð er að greiðslukortavelta erlendra ferðamanna nái rúmlega 250 milljörðum króna í ár og 333 milljörðum á því næsta. Erfitt er þó sagt að spá fyrir um meðaleyðslu eða útgjöld ferðamanna almennt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×