Viðskipti innlent

Hregg­viður ráðinn fram­kvæmda­stjóri The Engine

Atli Ísleifsson skrifar
Hreggviður Steinar Magnússon.
Hreggviður Steinar Magnússon. Aðsend

Hreggviður Steinar Magnússon hef­ur verið ráðinn framkvæmdastjóri The Engine. Hann hefur frá því í október 2018 starfað sem leiðtogi stafrænnar markaðssetningar hjá The Engine og Pipar\TBWA.

Í tilkynningu segir að Hreggviður hafi leitt stafræna vegferð Pipar\TBWA og The Engine frá árinu 2018 þegar The Engine varð dótturfyrirtæki Pipar\TBWA. Hann hefur tvær meistaragráður frá Háskólanum í Reykjavík, annars vegar í markaðsmálum en hins vegar í fjármálum fyrirtækja.

„Hreggviður tók við starf­inu 1. september og er uppbygging á Norðurlöndum mest aðkallandi verkefni næstu mánaða. The Engine hefur gengið frá samkomulagi við TBWA auglýsingastofukeðjuna um að The Engine verði stafrænn armur allra stofanna á Norðurlöndum. En TBWA starfrækir stofur í Helsinki, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Oslo auk Reykjavík. Starfsfólk þessara stofa telja yfir 300 manns,“ segir í tilkynningunni. 

Þá kemur fram að The Engine sé dótturfélag Pipar\TBWA sem sérhæfi sig í rekstri stafrænna auglýsinga á Google, Meta, Snapchat, TikTok, LinkedIn og fleiri stafrænum miðlum ásamt annarri tengdri þjónustu.

„Fyrirtækið var stofnað árið 2005 af Kristjáni Má Haukssyni þá undir nafninu Nordic eMarketing. En Kristján starfar enn í fyrirtækinu og sem stafrænn leiðtogi fyrirtækisins í Osló. 

Árið 2014 var nafninu breytt í The Engine og starfsemi einnig hafin í Noregi það ár. Fyrirtækið vinnur nú alþjóðlega með viðskiptavini í 3 heimsálfum og er stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Nýverið var opnuð skrifstofa í Kaupmannahöfn og eru því skrifstofur fyrirtækisins nú í Reykjavík, Oslo og Kaupmannahöfn. Unnið er að opnun skrifstofu í Helsinki og Stokkhólmi,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×