Erlent

Ulf Kristers­son nýr for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar

Atli Ísleifsson skrifar
Ulf Kristersson tekur við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar af Magdalenu Andersson.
Ulf Kristersson tekur við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar af Magdalenu Andersson. Getty

Ulf Kristersson, formaður sænska hægriflokksins Moderaterna, er nýr forsætisráðherra Svíþjóðar. Þetta varð ljóst eftir atkvæðagreiðslu í sænska þinginu um tillögu þingforsetans Andreas Norlén í morgun. 

Alls greiddu 176 þingmenn atkvæði með tillögunni og 173 gegn. Í Svíþjóð er fyrirkomulagið á þann veg að meirihluti þings þarf einungis að umbera forsætisráðherrann, það er ekki greiða atkvæði gegn tillögu þingforseta um forsætisráðherra. 

Kristersson mun leiða þriggja flokka ríkisstjórn Moderaterna, Kristilegra demókrata og Frjálslyndra og munu Svíþjóðardemókratar, sem er nú stærsti flokkurinn á hægri væng stjórnmálanna, verja hana vantrausti. 

Kristersson tekur við embætti formanns Jafnaðarmanna, Magdalenu Andersson, sem tók við stöðunni af Stefan Löfven fyrir um ári síðan. 

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, Ulf Kristersson, formaður Moderaterna, Ebba Busch, formaður Kristilegra demókrata og Johan Pehrson, formaður Frjálslyndra.AP

Hinn 58 ára Kristersson hefur átt sæti á sænska þinginu frá árinu 2014, en hann sat einnig á þingi á árunum 1991 til 2000. Á sínum yngri árum var hann formaður ungliðahreytingar Moderaterna, 1988 til 1992. 

Kristersson var ráðherra félags- og tryggingamála 2010 til 2014, í ríkisstjórn Fredriks Reinfeldt. Hann tók við formennsku í Moderaterna af Önnu Kinberg Batra árið 2017.  

Ný stjórn hefur boðað viðamiklar breytingar meðal annars á sviði innflytjendamála og orkumála, en stuðningsflokkur nýrrar stjórnar, Svíþjóðardemókrata, hefur lengi talað fyrir mun strangari stefnu í málefnum innflytjenda. 


Tengdar fréttir

Þriggja flokka stjórn sem Sví­þjóðardemó­kratar verja van­trausti

Borgaralegu flokkarnir í sænskum stjórnmálum hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Ulf Kristersson, formanns Moderaterna. Ríkisstjórnin mun samanstanda af ráðherrum úr röðum Moderaterna, Kristilegra demókrata og Frjálslyndra. Svíþjóðardemókratar munu ekki eiga sæti í ríkisstjórninni en verja stjórnina vantrausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×