Arnaldur staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi tilkynnt um afsögn sína í gærmorgun. Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu en upphaflega ætlaði Arnaldur sér að segja af sér þann 10. október á aukaaðalfundi.
Fundinum var þó frestað vegna mistaka í fundarboði. Arnaldur vildi þó standa við það sem hann hafði sagt og sagði af sér í gærkvöldi.
„Fyrst og síðast vegna þess að ég tel það þurfi að vera breytingar á Prestafélagi Íslands. Við getum ekki verið samblanda af fagfélagi og stéttarfélagi með þeim hætti sem við erum í dag. Sjálfur hef ég sagt mig úr Prestafélaginu og hef gengið til liðs við Fræðagarð. Ég tel að allir prestar ættu að sameinast þar innan raða ásamt öðru háskólamenntuðu starfsfólki kirkjunnar í einu stóru stéttarfélagi,“ segir Arnaldur í samtali við fréttastofu.
Afsögnin kemur í kjölfar þess að mikil óeining hefur ríkt innan Prestafélagsins og prestasamfélagsins á Íslandi. Félag prestvígðra kvenna lýsti yfir vantrausti á hendur Arnaldi vegna ummæla sem hann lét falla í viðtali um mál séra Gunnars Sigurjónssonar á Útvarpi Sögu. Gunnar var stuttu fyrir það áminntur fyrir ósæmilega hegðun gagnvart konum á vinnustað hans í Digranes- og Hjallaprestakalli.
„Við getum ekki sett hvert annað í svona litlu samfélagi í þá stöðu að þurfa að standa með einum og þá upplifir annar að það sé verið að standa gegn sér. Það er mergur málsins,“ segir Arnaldur.