„Það yrði vegur til helvítis fyrir Ameríku!“
Það sem er áhugavert við nýleg viðbrögð Jamie Dimon, bankastjóra JP Morgan Chase, í yfirheyrslu í Bandaríkjaþingi og tilfærslu eignarhalds Yvon Chouinard, stofnanda Patagonia, er að báðir aðilar hafa sjálfbærnisjónarmið að leiðarljósi.
Yvon Chouinard, sem stofnaði Patagonia árið 1973, hefur ávallt haft að leiðarljósi áhrif starfsemi félagsins á umhverfið. Patagonia er þekkt fyrir að innleiða sjálfbærnisjónarmið í hönnunarferli og á rekstur, svo sem með betri nýtingu á hráefnum, lengri líftíma á vörum, til dæmis með viðgerðum. Þá hefur fyrirtækið langa sögu aktívisma á þessu sviði en það lagði á sig sjálfskipaðan 1 prósent loftslagsskatt, styður íþróttafólk sem beitir sér fyrir jákvæðum breytingum á umhverfið og samfélagið og hefur reglulega rifist við pólitíkina í Bandaríkjunum, meðal annars við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
JP Morgan Chase er bandarískur banki sem er samsuða af sameiningu fjölmargra fjármálastofnana í gegnum árhundruði og má rekja sögu hans aftur til 1799. Margir myndu skilgreina JP Morgan sem holdgerving bandaríska kapítalsins þar sem ekkert stoppar fjárhagslega gróðrarvon þeirra sjálfra til að halda hlutabréfaverði uppi og eins fyrir hönd viðskiptavina þeirra til þess að fá þóknanir í eigin vasa. Engu að síður birti JP Morgan 78 blaðsíðna ESG skýrslu fyrir árið 2021.
Það sem veitir gagnrýnendum byr undir báða vængi er meðal annars stríð í Úkraínu og áhrif þess á orkuöryggi og matvælaverð sem og yfirvofandi alþjóðlega efnahagslægð.
Patagonia náði sennilega hámarki aktívisma síns nýlega þar sem félagið, sem metið er á um þrjá milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 430 milljarða íslenskra króna, er nú einvörðungu í eigu jarðarinnar. Þetta þýðir að allur arður af rekstri félagsins fer til jarðarinnar eða nánar tiltekið til verkefna sem stuðla meðal annars að viðsnúningi loftslagsbreytinga eða kaupa á landi til verndunar. Í lagalegum skilningi er svo um flóknari eignarhald að ræða í gegnum fjárvörslusjóð (e. trust) en endanlegur eigandi er jörðin okkar góða.
Undirnefnd bandaríska þingsins um fjármálamarkaði „grillaði“ sjö af bankastjórum stóru bankanna þar í landi nýlega. Þegar Jamie Dimon, bankastjóri JP Morgan Chase, var spurður hvort að bankinn hans væri með stefnu um að hætta að fjármagna ný olíu- og gas verkefni sagði hann: „Alls ekki! Það yrði vegur til helvítis fyrir Ameríku!“ Þar vísaði hann líklega til þess að fátækasta fólkið stólar á þennan orkugjafa og hefur til dæmis ekki efni á nýjum rafmagnsbílum, orkuöryggi er ekki tryggt og að slíkar aðgerðir myndu hafa geigvænlega neikvæð áhrif á efnahagskerfi Bandaríkjanna og leiða til minni velmegunar (e. prosperity, sem er einn af megin-stólpum sjálfbærni).
Hafa bæði Yvon og Jamie rétt fyrir sér?
Það er mikið sótt að hugmyndafræði ESG um þessar mundir og hún gagnrýnd með ýmsum hætti. Það sem veitir gagnrýnendum byr undir báða vængi er meðal annars stríð í Úkraínu og áhrif þess á orkuöryggi og matvælaverð sem og yfirvofandi alþjóðlega efnahagslægð. Undir þeim kringumstæðum er eðlilegt að staldra við og endurhugsa málin.
Við erum einnig að fá yfir okkur holskeflu af lögum, reglugerðum, stöðlum og leiðbeiningum sem verður einnig til þess að fólk fer að spyrja sig hvað í þeim felst og áhrif þeirra á rekstur, fjármagn sem og jörðina og samfélög.
Ég er nokkuð viss um að mjög fáir efist um markmiðin með ESG-vegferðinni, þ.e. minni neikvæði áhrif á jörðina, jafnrétti, traustar stofnanir, hagsæld o.s.frv. Aðallega er þó deilt um forgangsröðun og kostnað aðgerða ásamt því að bent er á að í flóknu kerfi hafi ákveðnar aðgerðir oft óvæntar afleiðingar. Það má segja að Yvon og Jamie hafi báðir haft sjálfbærnisjónarmið að leiðarljósi í sínum nýlegu aðgerðum og málflutningi en þó með mismunandi hætti og formerkjum og hlotið stuðning mismunandi hópa.
Við erum einnig að fá yfir okkur holskeflu af lögum, reglugerðum, stöðlum og leiðbeiningum sem verður einnig til þess að fólk fer að spyrja sig hvað í þeim felst og áhrif þeirra á rekstur, fjármagn sem og jörðina og samfélög. Þá er einnig ljóst að á bakvið einhver þeirra er pólitík en ekki bara vísindi.
Til dæmis eru mismunandi hagsmunir ríkja innan Evrópusambandsins við spurningunum „hvað er grænt og af hverju?“ sem hefur orðið til þess að frágangur og innleiðing á ýmsum reglugerðum og stöðlum hefur frestast. Í einhverjum tilfellum er verið að reglufesta til dæmis útgáfu sjálfbærra fjármálaafurða. Það er markaður sem hefur þróast frá árinu 2008 út frá samkomulagi markaðarins og án inngripa. Í einhverjum tilfellum er því verið að reglufesta aðila sem eru ekkert endilega spenntir fyrir því.
Mannskepnan er óhófsöm í eðli sínu og að viðbrögð okkar við öfgum eru alltaf aðrar öfgar, ef horft er aftur í mannkynssöguna.
Verða orkuinnviðir framtíðar grænir?
Ég hitti nýverið Nicolas Nassim Taleb, rithöfund, stærðfræðing og áhættugreinanda, í Osló á ráðstefnu og hann sagði gestum að mannskepnan sé óhófsöm í eðli sínu og að viðbrögð okkar við öfgum eru alltaf aðrar öfgar, ef horft er aftur í mannkynssöguna. Á þessum tíma orkuóöryggis verður það til þess að forgangsatriði allra ríkja er orkuöryggi, endurskoðun á orkustefnum og líkleg offjárfesting í orkuinnviðum sem öfga-viðbrögð, samkvæmt Taleb.
Vonandi mun þessi offjárfesting leiða til þess að flest ríki hafi í kjölfarið trygga orkuinnviði til næstu kynslóða. Mikilvægt er að mest af þeim orkuinnviðum verði grænir en þó þannig að slíkar aðgerðir hafi ekki neikvæð félagsleg áhrif og stuðli jafnframt að hagsæld.
Höfundur er framkvæmdastjóri rekstrar hjá CICERO Shades of Green í Osló. Bjarni var einn frummælenda á Lagadeginum 2022 á málstofu um sjálfbærni og sjálfbær fjármál sem sótt var af um 150 lögfræðingum og lögmönnum.