Innlent

Ekki bjartsýnn á að sættir náist

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það eigi eftir að koma í ljóst hvort að Efling og  VR myndu vinna saman í komandi kjaraviðræðum.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það eigi eftir að koma í ljóst hvort að Efling og  VR myndu vinna saman í komandi kjaraviðræðum. Vísir/Vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist ekki vera bjartsýnn á að sátt náist á vettvangi Alþýðusambandsins á milli þeirra sem gengu út af þingi sambandsins í gær og þeirra sem eftir sitja. Hann segir engin bandalög utan ASÍ hafa verið mynduð.

Sem kunnugt er hættu Ragnar Þór, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins við framboð þeirra til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Þau, ásamt fjölmörgum félögum sinna félaga, gengu út af þinginu.

Ákveðið var í dag af þeim eftir sitja að fresta þinginu um hálft ár. Það þýðir að sitjandi forseti Kristján Þórður Snæbjarnarson, mun sinna því starfi þangað til næsta þing verður haldið. Hann hefur sagst treysta sér til að ná sáttum innan sambandsins.

Ragnar Þór var í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem Heimir Már Pétursson fréttamaður spurði Ragnar Þór hvort að einhverjar líkur væru á því að sættir myndi nást á milli þeirra sem gengu út í gær og þeirra sem eftir sátu þannig að þau gætu áfram starfað saman innan vettvangs ASÍ, mögulega fyrir kjaraviðræðna lotu sem þegar er hafin.

„Ég er ekki bjartsýnn á það. Ég er búinn að taka ákvörðun hvað varðar mína aðkomu að Alþýðusambandinu. Svo er þetta svolítið eins og spyrja einhvern sem var á fyllerí í gær hvort hann ætli að drekka í dag. Þetta er alls ekki tímabært að fara að ræða þessa hluti á þessu stigi. En ég er búinn að taka mína ákvörðun og hún stendur,“ sagði Ragnar Þór.

Bjartsýnn á að hægt sé að breikka hópinn

Aðspurður hvort að einhver blokk utan ASÍ væri að myndast sagðist Ragnar Þór vera bjartsýnn á það að hægt væri að breikka hópinn fyrir kjarasamningana, líkt og hann orðaði það.

„Við vorum byrjuð að þreifa fyrir okkur fyrir þing, meðal annars með iðnaðarmönnum og starfsgreinafélögunum. Það var bara mjög góður andi í því spjalli þannig að ég er bara nokkuð bjartsýnn á að við náum að breikka hópinn fyrir kjarasamningana,“ sagði Ragnar Þór.

Aðspurður sérstaklega um hvort að VR og Efling hyggðust vinna saman sagði Ragnar Þór að engar viðræður um slíkt hefðu farið fram. Slíkt ætti eftir að koma í ljós.

Ragnar Þór var einnig spurður hvort að í raun hafi verið einhver ástæða fyrir þau að ganga út af þinginu, hvort þau hefðu ekki bara átt að taka slaginn þrátt fyrir hvassa umræðu og una þeirri niðurstöðu sem kæmi út úr þinginu.

„Jújú, en þetta snerist í raun ekki um það. Þetta snerist um val. Að vera inn í þessu umhverfi. Ég hafði í raun val um að fara aftur í VR og vinna með mínu frábæra fólki og ég bara tók þessa ákvörðun. Ég ákvað að láta ekki bjóða mér þessa framkomu lengur.“


Tengdar fréttir

Segir Ólöfu Helgu veruleikafirrta og valdsjúka

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, frambjóðanda til forseta ASÍ, veruleikafirrta. Sólveig hafnar því að hún og félagar Eflingar viðstaddir þingi ASÍ hafi strunsað út af þinginu. Hún segir að þau hafi fylkt liði í samstöðu hvert við annað. 

Vonast til að hægt verði að lægja öldurnar fyrir kjara­við­ræður

Búast má við hörðum fram­boðs­slag á þingi Al­þýðu­sam­bandsins sem hófst í dag. Tvær fylkingar takast á en settur for­seti sam­bandsins vonast til að hægt verði að sætta hópana í mikil­vægum mál­efnum og marka stefnu fyrir komandi kjara­við­ræður.

Þingi ASÍ frestað með þorra atkvæða

Þingi ASÍ var rétt í þessu frestað fram á næsta vor með þorra atkvæða. Tillagan var samþykkt með 183 atkvæðum þingfulltrúa gegn 20. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, verður því áfram forseti sambandsins. Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, sem bauð sig fram til forseta sambandsins, greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Verkalýðsfélögin sundruð til viðræðna við stjórnvöld

Verkalýðsfélögin á almenna vinnumarkaðnum koma að óbreyttu sundruð til viðræðna við stjórnvöld í tengslum við komandi kjarasamninga. Starfandi forseti Alþýðusambandsins segir það skyldu sína að reyna að ná sáttum við þau stóru stéttarfélög sem gengu af þingi sambandsins, sem í dag var frestað fram á næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×