Innlent

Phoenix vill verða fyrsti vara­for­seti ASÍ

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Phoenix hefur boðið sig fram sem fyrsti varaforseti ASÍ.
Phoenix hefur boðið sig fram sem fyrsti varaforseti ASÍ. Vísir

Phoenix Jessica Ramos hefur tilkynnt framboð sitt til fyrsta varaforseta Alþýðusambands Íslands. Hún fer upp á móti Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, sem hefur verið fyrsti varaforseti undanfarið kjörtímabil og gegnt starfi forseta síðan Drífa Snædal sagði af sér embættinu.

Fram kemur í tilkynningu frá Phoenix að henni þyki mikilvægt að konur veljist til forystu innan sambandsins og ekki síst konur af erlendum uppruna. Rúmlega fimmtungur félagsfólks, eða 22,5 prósent, innan ASÍ sé af erlendum uppruna. 

„80% af innflytjendum á vinnumarkaði eru félagar í félögum sem heyra undir ASÍ. Okkar raddir þurf að heyrast. Ég er félagi í VR og tel líka mikilvægt að VR eigi fulltrúa meðal varaforseta,“ skrifar Phoenix í yfirlýsingu sinni. 

Hún segist vilja leggja mesta áherslu á vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar. Hún hafi sjálf starfað sem vinnustaðaeftirlitsfulltrúi hjá Eflingu og kynnst í gegnum starfið þeirri umfangsmiklu brotastarfsemi sem lýðist á íslenskum vinnumarkaði. 

„Þolendur eru nánast alltaf láglaunafólk og oft af erlendum uppruna. Ég vil beita mér fyrir eflingu vinnustaðaeftirlitsins og um leið fyrir bættum réttindum launafólks og raunverulegum viðurlögum gegn launaþjófnaði og öðrum brotum á vinnumarkaði,“ skrifar Phoenix. 

„Ég er frá New York og flutti til Íslands árið 2015. Ég starfaði innan ferðaþjónustu fyrst um sinn og síðan ýmist í ferðaþjónustu eða verslun. Ég var trúnaðarmaður hjá VR hjá einu af fyrirtækjunum sem ég starfaði fyrir og varð þannig virk í verkalýðsbaráttunni.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur tilkynnt framboð til forseta ASÍ og Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, tilkynnt framboð gegn honum. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar,  til annars varaforseta sambandsins. Þá hefur Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, sagst munu bjóða sig fram sem þriðji varaforseti. 


Tengdar fréttir

Vonast til að hægt verði að lægja öldurnar fyrir kjara­við­ræður

Búast má við hörðum fram­boðs­slag á þingi Al­þýðu­sam­bandsins sem hófst í dag. Tvær fylkingar takast á en settur for­seti sam­bandsins vonast til að hægt verði að sætta hópana í mikil­vægum mál­efnum og marka stefnu fyrir komandi kjara­við­ræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×