Sport

Viðar: Höfðum ekki trú og þor til að fara alla leið

Andri Már Eggertsson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Viðar Örn Hafsteinsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Bára Dröfn

Höttur tapaði í Ólafssal gegn Haukum 98-92. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var afar svekktur með þriðja leikhluta sem gerði útslagið.

„Varnarleikurinn var lélegur bæði í upphafi leiks og í byrjun síðari hálfleiks. Við hittum vel í fyrri hálfleik það bjó til muninn en varnarleikurinn var ekki til útflutnings í dag,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í samtali við Vísi eftir leik.

Viðar tók ekki undir það að góð þriggja stiga nýting í fyrri hálfleik myndi koma í bakið á þeim heldur var það varnarleikurinn í seinni hálfleik sem var lélegur. 

„Ég tala ekki niður það sem er gott. Við misstum taktinn í sókninni þar sem Haukar mættu okkur og við brugðumst illa við því. Varnarleikurinn var einnig lélegur þar sem við gáfum mikið af auðveldum körfum og náðum ekki upp kraftinum sem við ætluðum okkur að standa fyrir.“

Viðar var ánægður með sóknarleikinn í fyrri hálfleik sem skilaði 55 stigum.

„Ég var ánægður með sóknarleikinn við vorum að taka góð skot inn í okkar kerfi sem skilaði okkur sóknarfráköstum þegar við klikkuðum. Við komum okkur aftur inn í leikinn undir lok fjórða leikhluta en holan var orðin of djúp og við höfðum ekki trú og þor til að fara alla leið,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×