Erlent

Þúsundir hafi látist í hitabylgjunum í Bretlandi í sumar

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Hitinn fór yfir fjörutíu gráður í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust í Bretlandi.  
Hitinn fór yfir fjörutíu gráður í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust í Bretlandi.   AP/Yui Mok

Á þriðja þúsund manns, 65 ára og eldri, létust á meðan hitabylgjum í Bretlandi stóð í sumar en alls voru umfram dauðsföll 2.803 talsins í sumar og hefur umfram dánartíðni hjá þessum aldurshóp ekki verið meiri frá árinu 2004. Hátt í fimmtán hundruð umfram dauðsföll voru skráð á einu tímabili í ágúst.

Þetta kemur fram í frétt Sky News þar sem vísað er í opinberar tölur frá heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi en dauðsföll vegna Covid eru ekki í þeim tölum. 

Mannskæðar hitabylgjur geisuðu á Bretlandi í sumar og í júlí fór hitinn yfir fjörutíu gráður á nokkrum stöðum í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust. Þá gaf Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA) út rauða hitaviðvörun í fyrsta sinn.

Ríflega þúsund umfram dauðsföll voru skráð á fjögurra daga tímabili í júlí en flest umfram dauðsföll á einu tímabili voru frá áttunda til sautjánda ágúst, þar sem 1.458 dauðsföll voru skráð. 

Isabel Oliver, yfirmaður vísinda hjá stofnuninni, segir áætluð umfram dauðsföll á tímabilinu sýna fram á að mikill hiti geti leitt til ótímabærs dauða hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir.

„Fleiri umfram dauðsföll áttu sér stað á heitustu dögum ársins og hlýrra loftslag þýðir að við verðum að venjast því að lifa örugglega í heitustu sumrum framtíðarinnar,“ segir Oliver.


Tengdar fréttir

Hlýnun gerði þurrka í sumar tuttugufalt líklegri en ella

Þurrkar í þremur heimsálfum í sumar voru tuttugufalt líklegri til að eiga sér stað en ella vegna hnattrænnar hlýnunar. Stórfljót þornuðu upp, uppskerubrestur varð og skógareldar kviknuðu í þurrkunum í Evrópu, Kína og Bandaríkjunum.

Mestu þurrkar Evrópu í fimm hundruð ár

Lítið sem ekkert hefur rignt í Vestur-, Suður- og Mið-Evrópu í tæpa tvo mánuði. Veðurfræðingar búast ekki við rigningu á næstunni og hefur þurrkunum verið lýst sem þeim verstu í heimsálfunni í fimm hundruð ár.

„Fólk er að búast við því versta“

Sérfræðingar vara við mannfalli í sögulegri hitabylgju sem gengur yfir Bretland á morgun og gróðureldar í Evrópu valda áfram gríðarlegri eyðileggingu. Íslendingur í Lundúnum segir borgarbúa uggandi. Þeir búi sig undir það versta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×