Upphaflegu þættirnir um Scooby-Doo hófu göngu sína árið 1969. Síðan þá hafa verið gerðar ótal margar þáttaraðir, teiknimyndir og tvær leiknar kvikmyndir.
Nýja myndin Trick or Treat Scooby-Doo! kom út í gær. Aðalpersónurnar Scooby, Shaggy, Daphne, Fred og Velma eru öll á sínum stað. En auk þess fá áhorfendur að kynnast nýrri persónu, búningahönnuðinum Coco Diablo.
Í kvikmyndinni verður Velma hrifin af Coco. Í myndbrotinu hér að neðan má sjá þegar Velma ber Coco augum í fyrsta sinn og verður augljóslega heilluð.
OMG LESBIAN VELMA FINALLY CANON CANON IN THE MOVIES LETS GOOOOOO pic.twitter.com/0ilx2uid1q
— Trin (@MythicalLlamaXO) October 3, 2022
Skrifaði persónuna upphaflega sem samkynhneigða
Miðað við viðbrögð á samfélagsmiðlinum Twitter taka aðdáendur þessum tíðindum fagnandi. Hörðustu aðdáendur hafa lengi talið sig vita að Velma væri samkynhneigð, þrátt fyrir að hún hafi átt í ástarsambandi við karlmann í leiknu kvikmyndinni Scooby-Doo 2: Monsters Unleashed frá árinu 2004.
Kvikmyndagerðarmaðurinn James Gunn skrifaði handritið að báðum leiknu kvikmyndunum sem gerðar hafa verið um fimmmenningana. Gunn segist upphaflega hafa skrifað persónu Velmu sem samkynhneigða en sú hugmynd hafi ekki hlotið góðar undirtektir.
Lokaniðurstaðan hafi verið sú að Velma yrði hrifin af safnverðinum Patrick, þvert á vilja handritshöfundar. Í atriðum sem klippt voru úr kvikmyndinni hefði mátt sjá ýmsar vísbendingar um raunverulega kynhneigð Velmu.
„Engar nýjar fréttir hér“
Árið 2020 deildi framleiðandinn Tony Cervone mynd af Velmu á Instagram-síðu sinni í tengslum við Pride Month. Af henni að dæma hefur það lengi verið vitað að Velma væri samkynhneigð, þó svo að það hafi ekki verið gert opinbert fyrr en nú.
„Við reyndum að hafa þetta eins skýrt og við gátum og flestir aðdáendurnir náðu þessu. Þið sem náðuð þessu ekki, ég legg til að þið horfið betur. Það eru engar nýjar fréttir hér,“ skrifaði Cervone.